Stefán Einar Stefánsson, fyrrum formaður VR, hefur verið ráðinn sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Stefán Einar mun starfa á viðskiptafréttadeild blaðsins og hóf störf í dag. Frá þessu er greint á vef DV. Stefán Einar er með BA í guðfræði og MA í viðskiptasiðfræði. Hann hefur starfað sem formaður VR, stundakennari við HR og framkvæmdastjóri hins íslenska biblíufélags.
Stefán Einar var kjörinn formaður VR árið 2011. Hann hlaut 20,6 prósent atkvæða í kosningu þar sem sjö voru í framboði sem dugði til sigurs. Kjörsókn var sautján prósent. Í næstu kosningum, sem fóru fram árið 2013, tapaði hann með miklum mun fyrir Olafíu B. Rafnsdóttur, núverandi formanni VR. Hún hlaut 76 prósent atkvæða á meðan Stefán Einar fékk 24 prósent.