Sýrlenski stjórnarherinn berst nú af hörku við liðsmenn Íslamska ríkisins (ISIS), í grennd við hina fornu borg Palmyra, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. ISIS hefur hótað að sprengja borgina meira og minna alla upp og eyðileggja hana, en það hefur ekki gerst enn.
Eitt af því sem þessum glæpamönnum sem tengja sig við Íslamska ríkið hefur tekist, er að skapa ótta um allan heim í gegnum samfélagsmiðla. Þeir hafa meðal annars notað myndbönd í þeim tilgangi.
Markmiðið virðist vera að fá fólk til að dreifa þeim, ekki síst þá sem fordæma verk þeirra. Þeir eru líklegir til að dreifa hræðsluáróðrinum, og segja um leið; sjáið, þetta eru villimenn.
Sterkasta vopnið gegn þessum skipulagaða hræðsluáróðri er að dreifa ekki efninu á samfélagsmiðlum, og að muna, að ekkert réttlætir að gefa glæpum þessa fólks sem stendur að ISIS trúarlega vængi. Þá fyrst er ákveðinn sigur unninn hjá þeim sem vilja ekki aðeins drepa saklaust fólk heldur líka hræða sem flesta.
Þau sem eru að dreifa hræðsluáróðrinum - ekki síst þau sem teljast til mikilla andstæðinga - ættu að hugsa um þetta. Dreifingin ein og sér, jafnvel þó efnið sé fordæmt, getur búið til hræðslu og ótta.