Stjórn Bankasýslu ríkisins segist vera að skoða lagalega stöðu sína gagnvart þeim fjármálafyrirtækjum sem önnuðust sölu á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka í lokaða útboðinu sem fram fór 22. mars. Stjórnin segir að ef ágallar komi í ljós muni Bankasýslan „að óbreyttu ekki greiða umsamda söluþóknum“ til fyrirtækjanna í slíkum tilvikum.
Stjórn Bankasýslu ríkisins skipa þau Lárus L. Blöndal stjórnarformaður auk Margrétar Kristmannsdóttur og Vilhjálms Bjarnasonar.
Í athugasemd frá stjórninni, sem birt er á vef Bankasýslunnar í dag, er rakið að upp hafi komið „vafi um hvort kröfum um hæfi fjárfestar hafi verið fylgt eftir af þeim fjármálafyrirtækjum sem sáu um sölu á hlut ríkisins“ í útboðinu og að mögulegir hagsmunaárekstrar einstakra söluaðila við kaup starfsmanna eða tengdra aðila á hlutum í bankanum séu einnig til athugunar, en slík skoðun er í höndum Fjármálaeftirlitsins.
Stjórn Bankasýslunnar minnir á að stofnunin hafi engar heimildir til eftirgrennslan eða athugunar á þessum atriðum. „Fjármálaeftirlitið hefur aftur á móti slíkar heimildir skv. lögum og hefur það nú hafið athugun á áðurnefndum þáttum tengdum útboðinu og mun skila niðurstöðu innan fárra vikna. Bankasýsla ríkisins fagnar þeirri athugun,“ segir í athugasemd stjórnarinnar.
Þar segir einnig að fjármálaeftirlitið skoði meðal annars hæfi þeirra fagfjárfesta sem fengu að kaupa, en stjórnin minnir á að það hafi verið hlutverk söluaðila að meta það enn ekki Bankasýslu ríkisins.
„Komi í ljós að einhverjir söluaðilar hafi ekki staðið undir því trausti sem Bankasýslan gerði til þeirra mun það hafa áhrif á söluþóknanir til þeirra. Stjórn Bankasýslu ríkisins skoðar nú lagalega stöðu sína gagnvart söluaðilum og mun að óbreyttu ekki greiða umsamda söluþóknum í tilvikum þar sem ágallar voru við sölu á 22,5% hlut ríkisins til hæfra fagfjárfesta,“ segir í athugasemd stjórnar Bankasýslunnar, stofnunarinnar sem ríkisstjórnin boðar nú að leggja skuli niður með lagabreytingum við fyrsta tækifæri.