„Stjórnin hefur og mun vinna að því að afla frekari upplýsinga um upphaf og rannsókn þessa máls en ætla má miðað við þá opinberu umræðu, að ekki hafi verið rétt að málum staðið.“ Þetta segir í skriflegu svari Guðmundar Inga Rúnarssonar, formanns Lögreglufélags Reykjavíkur (LR), við fyrirspurn Kjarnans varðandi LÖKE-málið svokallaða.
Eins og kunnugt er felldi Ríkissaksóknari niður veigamesta ákæruliðinn í málinu, þar sem lögreglumaðurinn Gunnar Scheving Thorsteinsson var upphaflega sakaður um að hafa flett upp 45 konum í LÖKE-málaskrá lögreglu án þess að það tengdist störfum hans sem lögreglumaður. Í ljós kom að rannsókn lögreglu, sem Ríkissaksóknari hafði forræði yfir, var verulega ábótavant og því var ákæruliðurinn látinn niður falla.
Verjandi Gunnars, Garðar Steinn Ólafsson héraðsdómslögmaður, hefur gagnrýnt Öldu Hrönn Jóhannsdóttur þáverandi aðstoðarlögreglustjóra á Suðurnesjum, fyrir framgöngu hennar í málinu og hefur sagt að veikur málatilbúnaður hafi runnið undan rifjum hennar.
Í áðurnefndu svari formanns Lögreglufélags Reykjavíkur, við fyrirspurn Kjarnans, kemur fram að stjórn félagsins muni ekki tjá sig um málið fyrr en frekari niðurstaða liggi fyrir. „En að sjálfsögðu harmar stjórn Lögreglufélags Reykjavíkur, ef svo reynist, að þarna hafi verið farið fram með meira kappi en forsjá.
Stjórn Lögreglufélags Reykjavíkur lýsir jafnframt fullum stuðningi við sína félaga í öllum þeim málum sem kunna að koma upp. Félagsstuðningur er lykilatriði á stundum sem þessu,“ segir að lokum í svari formanns LR.