Ósk Björgólfs Thors Björgólfssonar um afsökunarbeiðni vegna þess sem hann vill meina að hafi verið meiðandi umfjöllun Kastljóss um sig þann 23. júní síðastliðinn var tekin fyrir á stjórnarfundi hjá Ríkisútvarpinu (RÚV) á miðvikudag. Guðlaugur Sverrisson, varaformaður stjórnarinnar, segir að þar hafi verið ákveðið að vísa málinu til yfirmanna Kastljóss, útvarpsstjórans Magnúsar Geirs Þórðarsonar og fréttastjórans Rakelar Þorbergsdóttur. Það sé ekki hlutverk stjórnar RÚV að skipta sér að ritstjórn eða efnistökum Kastljóss.
Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður stjórnar RÚV, vék af fundinum á miðvikudag þegar málið var tekið fyrir. Hann vék einnig af fyrri fundi þegar bréf sem Björgólfur Thor sendi vegna sama máls í lok júní var tekið fyrir. Ástæðan er sú að lögmaður Björgólfs Thors í yfirvofandi hópmálsókn gegn honum, sem var umfjöllunarefni Kastljóss-þáttarins sem hann er ósáttur við, er Reimar Pétursson. Ingvi Hrafn og Reimar báðir í eigendahópi lögmannsstofunnar Lögmenn Lækjargötu og Ingvi Hrafn staðfestir við Kjarnann að þau tengsl séu ástæða þess að hann vék af fundunum. Hann segist ennfremur ekki hafa tekið neinn þátt í umfjöllun um málið.
Verulega ósáttur Björgólfur Thor
Björgólfur Thor ritaði í byrjun viku annað bréf til stjórnar RÚV ohf. þar sem hann ítrekaði óskir sínar um afsökunarbeiðni vegna þess sem hann vill meina að hafi verið meiðandi umfjöllun Kastljóss þann 23. júní síðastliðinn. Hann segir stjórnendur þáttarins hafa gengið svo langt í svarbréfi til sín að fullyrða að sekt hans sé sönnuð.
Björgólfur Thor Björgólfsson.
Í umfjöllun Kastljóss var fjallað um yfirvofandi hópmálsókn á hendur Björgólfi Thor þar sem til stendur að stefna honum sem fyrrum aðaleiganda Landsbankans fyrir að dylja raunverulegt eignarhald sitt í bankanum svo hann þyrfti ekki að upplýsa um stórtæk lánaviðskipti sín við hann. Einnig vilja stefnendur meina að Björgólfur Thor hafi ekki brugðist við þegar yfirtökuskylda á bankanum myndaðist árið 2006. Hann hafi þannig brugðist skyldu sinni að vernda lögbundin réttindi minni hluthafa í bankanum. Aðeins á að láta reyna á það fyrir dómi hvort bótaskylda sé fyrir hendi gagnvart hluthöfunum.
Björgólfur Thor var mjög ósáttur með umfjöllun Kastljós og sendi bréf til stjórnar RÚV í byrjun júlí þar sem hann krafðist opinberrar afsökunarbeiðni. Hann hélt því einnig fram að RÚV hefðu brotið þau lög sem gildi um stofnunina með því að „beita ófaglegum vinnubrögðum, láta sanngirni og hlutlægni lönd og leið og láta ógert að leita upplýsinga frá báðum aðilum eða kynna sjónarmið þeirra sem jafnast.“
Beindi seinna erindi sínu einungis til stjórnar
Í færslu sem birtist á bloggsíðu Björgólfs Thors, www.btb.is, í gær kemur fram að Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kastljóss, og Helgi Seljan, sem vann innslagið um Björgólf Thor, hafi sent honum svarbréf í lok júlí. Þar segir Björgólfur Thór að í bréfinu hafi þau sagt ýmsar nýjar upplýsingar hafa komið fram í þættinum svo sem fundargerðir og tölvuskeyti sem lögmaður í forsvari fyrir hópmálsókn gegn honum hafði látið þeim í té.
Síðan segir Björgólfur Thor: „Að mati ritstjóra og fréttamanns vörpuðu þessi einhliða gögn „meðal annars ljósi á það hver tilgangurinn var með breytingu á eignarhaldi á hlutabréfum. Eignarhaldið var fært á milli aðila til að koma í veg fyrir að Björgólfur Thor kæmist í þá stöðu að Landsbankinn þyrfti að upplýsa um viðskipti sín við hann og einnig að aðilar teljist yfirtökuskyldir samkvæmt lögum.“
Ég ætlaði vart að trúa mínum eigin augum þegar ég las þessa játningu ritstjóra og fréttamanns á því hvernig RÚV metur gögn annars aðila í boðuðu dómsmáli og kynnir fyrir landsmönnum öllum sem faglega, sanngjarna og hlutlæga frásögn.
Að þessu sinni er erindi mínu eingöngu beint að stjórn RÚV ohf., enda ber stjórnin ábyrgð á að farið sé að lögum í starfsemi Ríkisútvarpsins og þarf að gera aðalfundi grein fyrir því á ári hverju hvernig tekist hefur að uppfylla lögbundnar skyldur Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.“