Þingmenn stjórnarandstöðunnar lýstu yfir mikilli óánægju með frumvarp ríkisstjórnarinnar um lög á verkföll hjúkrunarfræðinga og félaga innan BHM við upphaf þingfundar í dag. Stjórnarandstaðan er óánægð með það hvernig að málinu er staðið, að ekkert samráð hafi verið haft við hana og að skammur tími hafi verið gefinn til að kynna sér frumvarpið.
Helgi Hjörvar og Össur Skarphéðinsson, þingmenn Samfylkingarinnar, og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, kröfðust skýringa á því hvers vegna Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra mun mæla fyrir frumvarpinu. Helgi sagði að það hefði verið eðlilegast að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra myndi mæla fyrir frumvarpinu og ef ekki hann þá formaður hins stjórnarflokksins, Bjarni Benediktsson. Ef ekki þeir tveir þá væri eðlilegt að heilbrigðisráðherra mælti fyrir frumvarpinu, enda væri frumvarpið rökstutt á grundvelli heilbrigðiskerfisins.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, töluðu bæði um það að stjórnarandstaðan hefði svo vikum skipti reynt að fá að ræða um kjaradeilurnar. „Við erum búin að bjóða upp á samtal um þetta aftur og aftur,“ sagði Katrín, en að eina svar stjórnarinnar hefði verið að þingmenn hefðu gert hróp að stjórnarandstöðunni. Helgi Hrafn sagði að tillagan og hvernig staðið er að henni sé fráleitt og vinnubrögðin ættu ekki að vera í boði í siðuðu samfélagi.
Mun fleiri þingmenn hafa einnig rætt málið og enn er verið að ræða um vinnubrögðin undir liðnum fundarstjórn forseta.