Enn er rætt um frumvarp ríkisstjórnarinnar um lög á kjaradeilur og frestun á verkföllum hjúkrunarfræðinga og félaga innan BHM á þinginu, jafnvel þótt ekki sé enn búið að mæla fyrir frumvarpinu. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, var fyrstur stjórnarliða til að tjá sig um málið undir liðnum fundarstjórn forseta. Hann brást ókvæða við gagnrýni stjórnarandstöðunnar, sem hefur sagt málið svívirðu, fráleitt og einhverjir talað um kjarkleysi stjórnarinnar. Gunnar Bragi hóf ræðu sína á að segja það gaman að sjá að stjórnarandstaðan nyti þess að vera í sviðsljósinu því það hefði hún ekki gert þegar hún sjálf hafi sett lög á verkfall flugvirkja. Gunnari Braga var svo mjög heitt í hamsi þegar hann sagði eftirfarandi, en gríðarlega mikið var kallað fram í fyrir honum eins og heyra má í þessu myndbandi.
„Svo tala menn um kjarkleysi hér. Hver var það sem þorði að standa uppi í hárinu á kröfuhöfunum? Ekki háttvirtur þingmaður Össur Skarphéðinsson. Hver var það sem þorði að taka á Icesave? Ekki háttvirtur þingmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Og hver þorði að lækka lán heimilanna? Ekki Samfylking og ekki Vinstri græn. Hvar er kjarkurinn? Hvar er kjarkurinn? Hræsni stjórnarandstöðunnar er það sem stendur upp úr og hefur alltaf gert.“