Kristinn Dagur Gissurason, sem situr í stjórn RÚV fyrir hönd Framsóknarflokksins, er óánægður með fréttaflutning fréttastofu RÚV af fjárkúgunarmálinu og vill að málið verði rætt á næsta fundi stjórnarinnar. Í athugasemd við stöðuuppfærslu á Facebook tekur hann undir pistil Páls Vilhjálmssonar á Moggablogginu þar sem hann segir RÚV viljugt verkfæri fjárkúgara. „Stjórnin ber nefnilega ábyrgð á því að RÚV starfi eftir þeim lögum sem um þá stofnun hafa verið sett af Alþingi,“ segir Kristinn Dagur. Hann telur fréttaflutning RÚV af málinu óvandaðan.
Hér má sjá ummæli Kristins Dags í athugasemd:
Páll Vilhjálmsson gagnrýndi í gær fréttastofu RÚV í pistli á bloggsvæði sínu. Hann telur RÚV leggja sig fram um að beina athyglinni frá gerendunum í málinu og gera forsætisráðherra að skúrki. „Blaðamannasysturnar sem reyndu að kúga fé úr fjölskyldu forsætisráðherra eru öllum hnútum kunnugar í íslenskum fjölmiðlum. Þeir vita sem er að íslenskir fjölmiðlar nota nafnlausar heimildir í meira mæli en þekkist á byggðu bóli í okkar heimshluta. Fréttastofa RÚV er sérlega óvandvirk að þessu leyti,“ skrifar Páll og vísar í frétt RÚV um málið.