Stjórnarskrárfélagið hvetur landsmenn til að hafna "skemmri skírn" sem felist í tillögum Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um breytingar á stjórnarskrá og lýsa frekar eftir því að Alþingi virði niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá sem fór fram haustið 2012 og kjósendur samþykktu með miklum meirihluta greiddra atkvæða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Bjarni Benediktsson ritaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann sagðist vilja kjósa um breytingar á stjórnarskrá samhliða forsetakosningunum á næsta ári. Hann vill að kosið verði um hvort að ákvæði sem lýsi auðlindir í náttúru Íslands þjóðareign rati þangað inn, um ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu og takmarkað framsal valdheimilda til alþjóðastofnana.
Á síðasta kjörtímabili lagði stjórnlagaráð, sem kosið var til af þjóðinni, fram frumvarp um miklar breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Frumvarpið var lagt fram árið 2011. Kosið var um tillögur ráðsins haustið 2012 þar sem tveir af hverjum þremur sem tók þátt í kosningunum sagðist vilja að tillögur ráðsins yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í tillögunum var meðal annars að finna ákvæði um að auðlindir yrðu þjóðareign og að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, líkt og Bjarni leggur nú til að kosið verði um.
Þar voru einnig tillögur um stórtækar breytingar á íslenska kosningakerfinu þar sem lagt var til að heimila aukið persónukjör og að atkvæði landsmanna myndu öll gilda jafn mikið, en mikið ósamræmi er í því vægi á milli landshluta í dag. Báðar tillögurnar voru samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012. Þær eru hins vegar ekki á lista yfir þær breytingar sem Bjarni leggur til að kosið verði um á næsta ári.
Minna á þjóðaratkvæðagreiðslu 2012
Í ályktun sinni segist Stjórnarskrárfélagið fagna allri umræðu um stjórnarskrána en minnir um leið á þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fór fram 20. október 2012. " Niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu var skýr og afdráttarlaus: Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda vill að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Slíkt frumvarp, fullbúið af hendi Alþingis, lá fyrir vorið 2013."
Félagið segir því að hugmyndir Bjarna séu í andstöðu við vilja meirihluta kjósenda. Ef það sé hins vegar einbeittur vilji þingsins að einskorða sig við þau tilteknu ákvæði sem Bjarni nefndi í grein sinni þá séu þau öll að finna í nýju stjórnarskránni. Því sé ástæðulaust að karpa um orðalag og útfærslu. "Þess vegna hvetur Stjórnarskrárfélagið landsmenn til að hafna skemmri skírn Bjarna Benediktssonar, en lýsa frekar eftir því að Alþingi virði niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 og lögfesti þá nýju stjórnarskrá sem kjósendur veittu brautargengi."