Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að skuldaleiðréttingin og lög um stöðugleikaskatt seú dæmi um lýðskrum. Þá sé lýðskrum stjórnmálamanna um verðtrygginguna efni í heila grein. Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Öll þessi þrjú mál eru á meðal helstu stefnumála ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem nú situr að völdum.
Í greininni gerir Vilhjálmur upp fyrstu tvo vetur sína sem þingmaður og sérstaklega það sem hann kallar „skrum hvers konar“ sem hann telur ástæðu til að staldra við. „Skrum hvers konar höfðar til lægri kennda mannsins, ef til vill helst til vanþekkingar og heimsku. Þó eru þess dæmi að hámenntað fólk fellur fyrir lýðskrumi af einhverju tagi og kýs yfir sig valdhafa sem eru vitfirringar. Ekki skal það fullyrt að hér í landi hafi vitfirringum tekist að ná kjöri en það hvarflaði að mörgum að framboð Besta flokksins í Reykjavík væri framboð vitfirringar fremur en alvöru. Þegar kosningaleikurinn var búinn reyndi þó meira á alvöruna og að hinir ábyrgðarfullu höfðu yfirhöndina.“
Lýðskrumari "par exellence"
Vilhjálmur nefnir síðan dæmi af stjórnmálamanni sem hafi staðið í pólitískri baráttu um 20 ára skeið án þess að hafa skrifað eina einustu grein um stjórnmálaskoðair sínar. Þess í stað hafi hann tjáð sig mun oftar „í óskiljanlegum ræðum og viðtölum“ þar sem hann komst upp með að svara ekki því sem hann var spurður um. Vilhjálmur nafngreinir ekki stjórnmálamanninn en nefnir að hann hafi einu sinni lýst því yfir að það væri sjálfsagt að þurrka út öll lán einnar atvinnugreinar með einu pennastriki vegna þess að hún hefði „lagt svo mikið til samfélagsins“.
Þegar þessi stjórnmálamaður hafi unnið sinn stærsta stjórnmálasigur í prófkjöri hafi honum verið hrósað í leiðara í Morgunblaðinu fyrir að vera óvenjunæmur á hvernig pólitískir vindar blésu hverju sinni. Vilhjálmur segir: „Í þeim ummælum mátti lesa á milli lína að þessi stjórnmálamaður væri lýðskrumari „par exellence“.“
Leiðréttingin innistæðulaus seðlaprentun
Hann víkur síðan að skuldaleiðréttingunni, stærsta kosningaloforði Framsóknarflokksins og einu aðalmáli þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að völdum. Vilhjálmur segir að leiðréttingin hafi verið um fjögur prósent en að í þeirri tölu sé nokkur óvissa þar sem enginn hat útskýrt hver skekkjan sem verið væri að leiðrétta sé. „Einhver reyndi að skilgreina „skekkjuna“ sem verðbólgu og verðbætur umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Gagngjald fyrir „leiðréttinguna“ var skattlagning á skuldir innlánsstofnana og slitabúa hinna föllnu banka. Ári síðar sammæltust fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi um að krónueignir slitabúa hinna föllnu banka væru hættulega við að komast í umferð; að eðli þess að krónueignirnar færu í umferð væri það sama og innstæðulaus seðlaprentun. Þessi 4% „leiðrétting“ með innstæðulausum krónum skilar sér einfaldlega í 4% verðbólgu sem dreifist yfir fjögur ár. Með því verða njótendur „leiðréttingarinnar“ jafnsettir og áður, nema þeir sem voru búnir að greiða sín lán að fullu, þeir njóta þessara „ódýru“ ávaxta, enda þurftu þeir ekki á neinni „leiðréttingu“ að halda! Þegar aðalhugmyndafræðingi „skuldaleiðréttingarinnar“ var bent á að fleiri skuldir en húsnæðisskuldir hafi hækkað var svarið að „leiðréttingin væri almenn en ekki altæk“! Því verður það niðurstaða þessarar „leiðréttingar“ að þeir sem skulda námslán verða verr settir eftir þessa mestu „skuldaleiðréttingu“ í veraldarsögunni! Og til hvers voru þá refirnir skornir?“
Stöðugleikaskattur andstæður stjórnarskrá?
Næst víkur Vilhjálmur í grein sinni að lögum um stöðugleikaskatt sem samþykkt voru skömmu fyrir þinglok og fela í sér að lagður verði 39 prósent skattur á slitabú fallinna fjármálafyrirtækja ljúki þau ekki nauðasamningum fyrir árslok. Vilhjálmur veltir því fyrir sér hver mörk skattlagningar og eignarnáms séu. „Vandamálið við skattlagninguna var reyndar það að hún er ekki almenn, þar sem hún nær til 7 til 11 aðila! Það er nú einmitt það sem kann að gerast í réttarríki að dómstólar dæmi löggjöf andstæða annarri löggjöf, til að mynda stjórnarskrá, hver svo sem óskhyggja þingheims er!“
Lokaorð Vilhjálms í greininni snúa síðan umræðum stjórnmálamanna um verðtryggingu, en sérstaklega er tekið fram í stefnuskrá sitjandi ríkisstjórnar að minnka vægi hennar og fjölmargir þingmenn Framsóknarflokksins hafa talað fyrir afnámi verðtryggingar. Vilhjálmur segir: „Lýðskrum um verðtryggingu er efni í heila grein því þar stendur ekki steinn yfir steini þegar allsnægtum afnámsins er lýst.“