Stjórnendur hjá almenningshlutafélaginu N1 eru með tólf til átján mánaða uppsagnarfrest, að því er fram kemur í útboðslýsingulýsingu félagsins í tengslum við skráningu þess á markað, og þar af er þáverandi fjármálastjóri og nú nýr forstjóri, Eggert Þór Kristófersson, með lengsta frestinn, átján mánuði eða eitt og hálft ár.
Nýverið voru forstjóraskipti hjá félaginu, þegar Eggert Benedikt Guðmundsson hætti sem forstjóri, eftir að stjórn félagsins ákvað að breyta til í yfirstjórninni, og Eggert Þór Kristófersson fjármálastjóri tók við sem forstjóri. Í tilkynningu N1 til kauphallarinnar vegna skiptanna kemur fram að staða fjármálastjórans verði auglýst á næstunni, og þakkar Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður, Eggerti Benedikt fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.
Í útboðslýsingunni kemur enn fremur fram að stjórnendur hjá N1 mega ekki vinna hjá samkeppnisaðila í allt að tvö ár eftir að þeir láta að störfum fyrir N1.
Stjórn félagsins tilkynnti um það 25. febrúar síðastliðinn að til standa að lækka hlutafé félagsins um 230 milljónir að nafnvirði, og greiða tæplega þrjá milljarða króna til hluthafa þegar samþykki hluthafafundar og yfirvalda hefur fengist. Þetta er í annað skiptið á innan við hálfu ári sem hlutafé félagsins er lækkað og arður greiddur út til hluthafa. Í október í fyrra var hlutféð lækkað um 300 milljónir að nafnvirði, og tæplega fjórir milljarðar greiddir í arð til hluthafa félagsins. Samþykki hluthafafundur að lækka hlutaféð um 230 milljónir til viðbótar, eins og fastlega má búast við að verði niðurstaðan, þá hafa hluthafar tekið tæpa sjö milljarða úr félaginu í formi arðgreiðslna á innan við hálfu ári.
Rekstur N1 í fyrra gekk í takt við áætlanir, en hagnaður félagsins nam 1,6 milljörðum króna í fyrra. Í árslok var eigið fé félagsins 11,4 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 49 prósent.
Gengi N1 á markaði kauphallarinn er nú 28,9, og hefur hækkað umtalsvert frá skráningu í lok árs 2013. Á rúmlega einu ári hefur gengi bréfa félagsins hækkað úr 18,8 í 28,9 og munar þar ekki síst um fyrrnefndar aðgerðir, þar sem hlutafé félagsins var lækkað og arður greiddur út til hluthafa.