Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, hefur sent ítrekun til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum innanríkisráðherra, um boð á að mæta á fund nefndarinnar. Bréf með ítrekuninni hefur verið birt á vef Alþingis.
Hann hafði áður, fyrir hönd nefndarinnar, ritað Hönnu Birnu bréf, þann 22. janúar síðastliðinn í tengslum við lekamálið og henni boðið að mæta á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir sinni sýn á málið og svara spurningum nefndarmanna um framgöngu sína í málinu. Þá var óskað eftir því að Hanna Birna myndi svara því skriflega hvort hún hyggðist verða við óskum um að mæta á fund nefndarinnar.
Slíkt svar hefur hins vegar ekki borist og því hefur nefndin óskað eftir að svar berist frá henni fyrir næsta fund, sem er áætlaður næsta þriðjudag, þann 17. mars næstkomandi.