Lagt er upp með að Stjórnstöð ferðamála hafi 140 milljónir króna til ráðstöfunar á ári og mun kostnaður vegna rekstrar hennar skiptast jafnt milli ríkissjóðs og ferðaþjónustunnar. Hörður Þórhallsson, sem ráðinn var framkvæmdastjóri Stjórnstöðvarinnar, mun starfa í fyrsta eftir tímabundnum ráðgjafasamningi á meðan verið er að móta starfsemina. Heildarkostnaður vegna samningsins er áætlaður um 1.950 þúsund krónur á mánuði. Þetta kemur fram í svörum atvinnuvegaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um ætlaðan kostnað við rekstur Stjórnstöðvar ferðamála. Starf framkvæmdastjórans var ekki auglýst.
Kjarninn spurði einnig hvort til stæði að ráða fleira starfsfólk til Starfsstöðvarinnar. Í svari ráðuneytisins segir: "Framkvæmdastjóri mun skipuleggja vinnuna í samræmi við áherslur hverju sinni og þá fjármuni sem Stjórnstöðin hefur til umráða. Samningurinn verður gerður í samræmi við lög um opinber innkaup."
Tilkynnt um stofnun Stjórnstöðvar í Hörpu í gær
Tilkynnt var um stofnun Stjórnstöðvar ferðamála með viðhafnarkynningu í Hörpu í gær. Hlutverk Stjórnstöðvarinnar verður að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við opinberar stofnanir og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Stjórnstöðinni er ætlað að starfa í fimm ár eða til ársloka 2020.
Hún er sett á laggirnar á grundvelli samkomulags milli ríkistjórnarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skipaði í gær tíu fulltrúa í stjórn Stjórnstöðvarinnar. Fjórir ráðherrar eiga þar sæti, fjórir fulltrúar frá Samtökum ferðaþjonustunnar og tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra er formaður Stjórnstöðvarinnar.
Þá var tilkynnt um að Hörður Þórhallsson hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála. Hann mun hefja störf 1. nóvember næstkomandi. Starf hans var ekki auglýst.
Hörður er með mastersgráðu í rekstrarverkfræði frá háskólanum Karlsruhe í Þýskalandi. Hann hóf starfsferil sinn árið 1996 sem rekstrarráðgjafi hjá VSÓ Ráðgjöf og var árið 2000 ráðinn til lyfjafyrirtækisins Delta, sem síðar varð Actavis. Þar leiddi hann m.a. uppbyggingu Actavís í Asíu, Eyjaálfu, Afríku og á Miðausturlöndum. Síðast gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra Actavis yfir Asíu, Eyjaálfu og Afríku með starfsstöð og búsetu í Singapúr.