Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvað henni fyndist um niðurstöðu Félagsdóms í máli Flugfreyjufélags Íslands gegn Icelandair í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í vikunni. Hún spurði meðal annars hvernig Katrín teldi að bregðast ætti við niðurstöðunni og hvernig ríkisstjórnin ætlaði að axla ábyrgð í þessu máli. Ráðherra svaraði og sagði að taka þyrfti málið alvarlega og draga lærdóm af niðurstöðunni.
RÚV greindi frá málinu í vikunni en það snerist um það hvort starfsaldur ætti að ráða þegar Icelandair endurréði flugfreyjur sem sagt var upp starfi fyrir tveimur árum. ASÍ höfðaði mál fyrir Félagsdómi gegn Samtökum atvinnulífsins. Icelandair sagði upp um 95 prósent flugfreyja meðan á kjaraviðræðum stóð. Eftir að þær kolfelldu kjarasamning var talað um að ráða fólk úr öðru stéttarfélagi. Samkvæmt dómi Félagsdóms bar Icelandair að fara eftir starfsaldri þegar félagið afturkallaði uppsagnir flugfreyja og flugþjóna sem kynntar voru í fyrrasumar. Icelandair var gert að greiða ASÍ fyrir hönd Flugfreyjufélagsins 800 þúsund krónur í málskostnað.
Fram kemur í frétt RÚV að gerð hafi verið sú eðlilega krafa að Icelandair, sem hafði þegið stuðning ríkisins við að segja fólki upp, réði starfsfólkið inn aftur í starfsaldursröð þegar starfsemi fyrirtækisins leyfði. Icelandair hafði ekki gert það heldur valið úr hópnum eftir eigin geðþótta. Niðurstaða Félagsdóms var skýr varðandi það að Icelandair hefði borið að fara eftir starfsaldri þegar félagið afturkallaði uppsagnir flugfreyja og flugþjóna.
Ráðherrum hefði verið ljós gallinn í uppsagnarleiðinni
Oddný sagði í fyrirspurn sinni að við afgreiðslu uppsagnarleiðarinnar vorið 2020 hefði hún lagt fram breytingartillögu um að skýrt yrði kveðið á um það í lögunum að endurráðning skyldi verða í starfsaldursröð.
„Sú tillaga var felld. Reyndar voru það aðeins þingmenn Samfylkingarinnar sem greiddu henni atkvæði ásamt einum háttvirtum þingmanni utan flokka. Milli umræðna um málið hafði forseti ASÍ sent öllum þingmönnum bréf um mikilvægi þess að slík tillaga yrði samþykkt. Stjórnarþingmönnum og ráðherrum í ríkisstjórninni var því alveg ljóst hver gallinn var á frumvarpinu en höfnuðu tillögunni og gáfu með því skýr skilaboð til fyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins um að starfsaldur skipti ekki máli við endurráðningu. Brotið var á starfsmönnum og stjórnvöld tóku meðvitaða ákvörðun um að koma ekki í veg fyrir það.“
Spurði hún í framhaldinu Katrínu hvernig hún teldi að bregðast ætti við niðurstöðu Félagsdóms og hvernig ríkisstjórnin ætlaði að axla ábyrgð í þessu máli.
„Slíka dóma á að taka alvarlega af hálfu stjórnvalda“
Katrín svaraði og sagði að það væri mjög mikilvægt að ríkisstjórnin og ráðherra vinnumarkaðsmála tæki niðurstöðuna nú til skoðunar því að þetta væri það fyrirkomulag sem Íslendingar hefðu á vinnumarkaði til að leysa ágreiningsmál. Niðurstaðan væri algjörlega skýr.
„Háttvirtur þingmaður spyr: Hver verða viðbrögðin? Þessi dómur er tekinn alvarlega og hann mun verða okkur lærdómur í framhaldinu. Það er í raun og veru það skýrasta sem ég get sagt um þetta. Ég vil líka segja það skýrt að slíka dóma á að taka alvarlega af hálfu stjórnvalda þegar kemur að framtíðarfyrirkomulagi, til að mynda lagabreytingum og öðru,“ sagði ráðherrann.
Fyrirtækja sem njóta ríkisaðstoðar ættu að sýna samfélagslega ábyrgð
Oddný kom aftur í pontu og sagði að markmiðið með uppsagnaleiðinni hefði verið að koma í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækja en ekki að skerða réttindi launafólks.
„Tillaga okkar í Samfylkingunni, um að koma í veg fyrir að það gerðist, var felld af hæstvirtum forsætisráðherra, fleiri ráðherrum og stjórnarþingmönnum sem sendu með því skilaboð um vilja sinn í málinu. Það er staðreynd málsins og stjórnvöld verða að axla ábyrgð á því. Ríkið greiddi út rúma 12 milljarða króna til fyrirtækja til að aðstoða þau við að segja upp fólki. Það voru auðvitað fleiri fyrirtæki en Icelandair.“
Spurði hún Katrínu hvort hún myndi beita sér fyrir því að greint yrði frá því hvernig staðið væri að endurráðningum hjá öðrum fyrirtækjum sem fengu ríkisstyrkinn og hvort hún teldi ekki að stjórnvöld ættu að gera skýlausa kröfu til fyrirtækja sem njóta ríkisaðstoðar um að þau sýndu samfélagslega ábyrgð og virtu rétt launafólks.
Ætlar ekki að lýsa neinu yfir því hún hefði ekki farið yfir dóminn
Katrín svaraði í annað sinn og benti að þessi dómur ætti sérstaklega við um flugfreyjur.
„Ég veit að í þeirra samningum eru sérstök ákvæði sem tengjast starfsaldri þannig að það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að skoða. Um það hvort dómur Félagsdóms – og ég ætla bara að segja það hér að ég er ekki búin að rýna hann nákvæmlega – hafi fordæmisgildi hvað varðar aðra geira vinnumarkaðarins ætla ég ekki að lýsa neinu yfir því að ég hef ekki farið yfir dóminn. Ég vænti þess að vinnumarkaðsráðherra hafi gert það. En ég ítreka það sem ég sagði að við eigum að taka þennan dóm alvarlega og draga af honum lærdóm.“