Leiðtogar íslensku ríkisstjórnarinnar og ráðgjafar hennar sem vinna að losun fjármagnshafta hafa „í vaxandi mæli áhyggjur af því að farsímar þeirra kunni að vera hleraðir af erlendum kröfuhöfum slitabúa föllnu bankanna“. Þetta kemur fram í DV í dag.
Þar segir einnig að stjórnvöld hafi séð ástæðu til að kalla til sérfræðinga frá rannsóknardeild lögreglunnar til að láta þá kanna hvort mögulega sé fylgst með samskiptum þeirra í gegnum farsíma og tölvupóst. Nánast útilokað hefur hins vegar reynst að komast að því hvort slíkar símhleranir eigið sér stað, eða hafi nokkurn tímann átt sér stað.
Í DV segir að úttekt sérfræðinga lögreglunnar, sem var framkvæmd undir lok síðasta árs, snérist um að skoða farsíma ráðgjafa stjórnvalda og hvort búið væri að koma upp hlerunarbúnaði á tilteknum stöðum þar sem vinna við að móta framkvæmd stefnu um losun hafta hafði átt sér stað.
Engin hlerunarbúnaður fannst á þeim stöðum sem leitað var á en samkvæmt DV voru skilaboð lögreglunnar til stjórnvalda og ráðgjafa þeirra skýr: gerið ráð fyrir því að erlendir kröfuhafar séu mögulega að hlera símanna ykkar í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem þeir eiga undir.
Sigmundur Davíð segir slíkar njósnaaðferðir auðveldar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir í samtali við blaðið að alltaf sé í gangi vinna við að tryggja öryggi gagna hjá ríkisstjórn og að símtæki ráðherra séu þar ekki undanskilin. Hann svarar því ekki beint hvort hann telji síma ráðherra eða ráðgjafa þeirra hleraða af erlendum kröfuhöfum.
Sigmundur Davíð segir þó: „Slíkar njósnaaðferðir eru nær okkur en við höldum eins og nýlegar fréttir frá Noregi hafa sýnt. Afbrot af þessu tagi virðast því miður vera orðin tiltölulega auðveld fyrir þá sem hafa fjármagn og mikilla hagsmuna að gæta.“