Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið segir að samkeppnisröskun sem felst í ólögmætri ríkisaðstoð ríkisins til fyrirtækja sé ekki stórvægileg. Hæsta ríkisaðstoðin hlaupi á fáum milljónum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu, en fyrr í dag greindi ESA, eftirlitsstofnun EFTA, frá því að Íslandi hefði verið stefnt fyrir EFTA dómstólnum vegna þessarar ólögmætu ríkisaðstoðar.
Málið snýst um ívilnunarsamninga sem íslenska ríkið gerði við fimm fyrirtæki: Becromal, Verne, Íslenska kísilfélagið, Thorsil og GMR endurvinnsluna. ESA komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að þessir samningar fælu allir í sér ríkisaðstoð sem gengi gegn EES-samningnum. Stjórnvöldum á Íslandi var fyrirskipað að stöðva allar frekari greiðslur ríkisaðstoðar á grundvelli þessara fimm samninga og sjá til þess að öll sú aðstoð sem veitt hafði verið fram að því yrði endurgreidd innan fjögurra mánaða. Það var fyrir 9. febrúar á þessu ári. Þá var íslenskum stjórnvöldum gert að tilkynna eftirlitsstofnuninni fyrir 9. desember í fyrra hver heildarfjárhæð ólögmætrar ríkisaðstoðar hefði verið veitt og tilkynna hvernig ríkið hygðist endurheimta þessa fjárhæð.
„Nærri ári eftir ákvörðun ESA hafa íslensk stjórnvöld enn ekki uppfyllt neina af þeim þremur kvöðum sem mælt var fyrir um í umræddri ákvörðun,“ segir ESA í tilkynningu í dag. Af þessum sökum verði að höfða mál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum.
Atvinnuvegaráðuneytið segir að íslensk stjórnvöld hafi undanfarna mánuði unnið að því að innleiða þessa ákvörðun ESA í samráði við stofnunina og fyrirtækin sem um ræðir. Gert er ráð fyrir því að búið verði að ganga frá endurgreiðslukröfum og ljúka málinu innan mánaðar. Þá segir ráðuneytið að ef Ísland verður dæmt fyrir dómstólnum felist í því áminning um að Íslandi beri að standa við skuldbindingar sínar innan tímamarka.