Sektir vegna stöðvunarbrota munu hækka um 100 prósent. Þetta kemur fram í auglýsingu um gjaldskrá vegn stöðvunarbrota í Reykjavíkurborg sem innanríkisráðuneytið birti í dag í Stjórnartíðindum. Hækkunin mun taka gildi frá og með birtingu auglýsingarinnar, þ.e. frá deginum í dag.
Annars vegar er um að ræða vegna banns við að leggja í stæði sem eru ekki sérstaklega merkt, til dæmis á gangstétt, gangstíg, umferðareyju, á gangbraut, gatnamótum, í merktu stæði fyrir leigubíla eða á biðstöð fyrir hópbifreiðar. Sekt vegna slíks brots mun hækka úr fimm þúsund krónum í tíu þúsund krónur.
Hins vegar er um að ræða stöðubrotsgjald þegar lagt er í stæði sem er sérstaklega merkt fyrir bifreiðir fatlaðs fólks. Sekt vegna slíks brots mun hækka úr tíu þúsund krónum í 20 þúsund krónur.
Tillaga bílastæðanefnar Reykjavíkurborgar um hækkunina frá 12. september 2014 var samþykkt á fundi borgarráðs þann 2. október 2014. Auglýsa þurfti hana í Stjórnartíðindum til að hún tæki gildi.