Alls mun stöðugleikaframlag slitabúa föllnu bankanna nema tæplega 379 milljörðum króna. Þar af er stöðugleikaframlag Glitnis 229 milljarðar króna, Kaupþings um 127 milljarðar króna og gamla Landsbankans um 23 milljarða króna. Auk þess verður ráðstöfun krónueigna búanna í skatta, kostnað og fleira um 46 milljarða króna. Þetta kemur fram í greinargerð Seðlabanka Íslands um mat á uppgjöri fallinna fjármálafyrirtækja á grundvelli stöðugleikaskilyrða og áhrif þeirra á greiðslujöfnuð og fjármálastöðugleika.
Auk þess munu skuldalengingar og uppgreiðsla lánafyrirgreiðslu, sem íslenska ríkið veitti nýju viðskiptabönkunum árið 2009, nema samtals 151 milljörðum króna. Þá munu endurheimtir krafna sem Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ), dótturfélag Seðlabanka Íslands ,heldur á nema 81 milljörðum króna, en félagið er stærsti innlendi kröfuhafi föllnu bankanna. Því reiknar Seðlanbankinn út að mótvægisaðgerðir sem gripið hafi verið til, nú og í fortíð, vegna stöðu slitabúanna, nemi 660 milljörðum króna. Þessi tala gæti hækkað ef endurheimtir af lágt metnum eignum hækka. Ekki er tilgreint í greinargerð Seðlabankans hvaða eignir það gætu verið.
Þegar áætlun stjórnvalda um losun hafta var kynnt í júní kom fram að álagning 39 prósent stöðugleikaskatts á slitabúin, tækist þeim ekki að ljúka nauðasamningsgerð sinni fyrir áramót, myndi skila 850 milljörðum króna.
Í kynningu sem haldin var í dag var ítrekað bent á að heildarumfang aðgerðanna væri 856 milljarðar króna. Þar voru taldar með allar aðgerðir í fortíð og nútíð gagnvart slitabúunum, stöðugleikaframlag, skattar, endurgreiðslur, endurheimtir ESÍ, endurgreiðslur á lánum sem íslenska ríkið veitti viðskiptabönkunum árið 2009 og fjármögnun sem slitabúin hafa samið um að veita íslenskum viðskiptabönkum.
Bjarni og Seðlabankinn styðja stöðugleikaframlag
Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í dag þá hefur Seðlabanki Íslands komist að þeirri niðurstöðu að nauðasamningar, og síðan slit slitabúa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, muni ekki valda greiðsluójöfnuði né ógna íslensku fjármálakerfi. Bankinn kynnti þessa niðurstöðu fyrir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, á mánudag. Bjarni greindi frá því í dag, í fyrsta sinn, að hann styðji þá niðurstöðu sem Seðlabankinn hefur komist að. Þ.e. að uppgjör slitabúanna verði klárað með stöðugleikaframlagi en ekki álagningu stöðugleikaskatts.
Á kynningarfundi sem haldinn var í dag kom einnig fram að slitabúin munu fá lengri frest en til áramóta til að klára uppgjör slitabúanna. Sá frestur verður til 15. mars 2016.