Nýr miðill sem sérhæfir sig einkum í fréttum um íslenskt viðskiptalíf og efnahagsmál hefur göngu sína á Vísi á næstunni. Fyrir miðlinum fara þau Hörður Ægisson og Ólöf Skaftadóttir en auk þeirra kemur til starfa viðskiptablaðamaðurinn Þorsteinn Friðrik Halldórsson. Um verður að ræða fréttamiðil í áskrift.
Frá þessu er greint á Vísi í dag.
Fram kom í fréttum í síðustu viku að Hörður hefði sagt upp störfum sem ritstjóri Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um efnahagsmál en hann hafði verið ritstjóri þar síðan 2017. Ólöf Skaftadóttir var ráðin samskiptastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) í apríl á síðasta ári en hún var áður ritstjóri Fréttablaðsins. Þorsteinn Friðrik hefur starfað bæði á Fréttablaðinu og á Morgunblaðinu síðastliðin ár.
Hörður segist í samtali við Vísi vera fullur tilhlökkunar að móta áskriftarmiðil undir hatti Vísis og fjölmiðla Stöðvar 2 og Vodafone.
„Miðillinn ætlar sér að vera fremstur í flokki þegar kemur að umfjöllun um íslenskt viðskiptalíf og skapa þannig virði fyrir lesendur sem ekki verður fundið með sama hætti á öðrum miðlum hérlendis. Leitast verður við að færa umgjörð fréttaflutnings um viðskipti, efnahagsmál og stjórnmál nær því sem þekkist á faglegum viðskiptamiðlum í helstu nágrannaríkjum,“ segir Hörður.
Ólöf segir að Vísir sé nú þegar mest lesni vefur landsins og hluti af öflugri fjölmiðlaflóru Stöðvar 2 og Vodafone. „Okkar nýi miðill mun leggja áherslu á fréttir af viðskiptum, ásamt stjórnmálum innanlands, og auka enn frekar þjónustu við lesendur Vísis og annarra miðla fyrirtækisins. Við hlökkum til að takast á við krefjandi verkefni og móta nýja miðilinn sem sækir fyrirmynd sína meðal annars til Norðurlanda og Bretlands.“