Ríkisstjórnin ætlar að fækka skattþrepum í tvö og hækka persónuafslátt, og þannig beita sér fyrir breytingum á tekjuskatti sem eigi að hækka ráðstöfunartekjur allra, en mest millitekjuhópa. Stjórnvöld kynntu fyrir skömmu aðgerðir í ellefu liðum til að greiða fyrir gerð kjarasamninga.
Þá verður ráðist í átak um byggingu 2300 félagslegra íbúða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins á árunum 2016 til 2019. Stuðla á að fjölgun ódýrra og hagkvæmra íbúða, til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma.
Einnig verða byggingarreglugerðir og gjaldtaka sveitarfélaga endurskoðuð til að reyna að lækka byggingarkostnað. Húsnæðisbætur eru hluti af tillögum ríkisstjórnarinnar, en þær verða hækkaðar. Til stendur einnig að stofna sérstakt þjóðhagsráð, „í því skyni að bæta samspil ríkisfjármála peningastefnu og vinnumarkaðar.“
„Aðrar aðgerðir lúta að jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða, niðurfellingu tolla á fatnað og skó, lækkun á kostnaði sjúklinga, auknum framlögum til framhaldsfræðslu og starfsmenntunar, átaki gegn skattaundanskotum, einföldun og endurskoðun regluverks og eftirlits með atvinnustarfsemi, stefnumörkun í opinberum fjármálum og samstarfi um mótun vinnumarkaðsstefnu og skipulag vinnumarkaðsmála,“ segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins um málið.
Fréttin verður uppfærð.