Frétt um „stórfurðulega“ skipan Stefáns Eiríkssonar, þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í nefnd sem átti að meta hæfni umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra, er frétt ársins á hinum virta vef Central Banking. Vefurinn birti í gær lista yfir helstu fréttir ársins að hans mati.
Fréttin sem um ræðir snérist um skipan hæfisnefndar sem sett var á laggirnar til að meta hæfi umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra.Fyrirsögn hennar var:
„Lögreglustjóri leiðir „stórfurðulega" nefnd sem velur næsta seðlabankastjóra". Nefndin var skipuð 30. júní síðastliðinn og var skipan hennar gagnrýnd mjög, sérstaklega að Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, væri gerður að formanni hennar. Gagnrýnin snérist að því að Stefán sé ekki hagfræðingur og sé ekki með neina starfsreynslu úr atvinnulífinu. Einungis einn hagfræðingur sat í þriggja manna nefndinni.
Listi Central Banking yfir helstu fréttir ársins 2014.
Nóbelsverðlaunahafar og seðlabankastjórar
Central Banking fjallaði um málið í byrjun júlí 2014. Þar var rætt við Guðrúnu Johnsen, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Regínu Bjarnadóttur, yfirmann greiningardeildar Arion banka, um skipan hæfisnefndarinnar. Guðrún sagði hana skaða bæði trúverðugleika ráðningarferlisins og vinnuanda í Seðlabankanum. Regína sagði að skipan hæfisnefndarinnar væri skaðleg sjálfstæði Seðlabankans.
Stefán Eiríksson, fyrrum lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Alls sóttu tíu manns um stöðu seðlabankastjóra þegar hún var auglýst í byrjun júní. Hæfisnefndin, sem Stefán leiddi, komst að þeirri niðurstöðu að þrír umsækjendur væru mjög vel hæfir til að gegna starfinu. Þeir væru Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Friðrik Már Baldursson og Ragnar Árnason. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, endurskipaði Má svo í starfið til fimm ára þann 15. ágúst.
Central Banking er áskriftarvefur sem fjallar um fjármál og efnahagsmál, með áherslu á seðlabanka, alþjóðlegar fjármálastofnanir og infastrúktúr fjármálamarkaða og reglugerðir. Vefurinn er mjög virtur og mikið lesinn af fagfólki sem vinnur í þeim geirum sem hann leggur mesta áherslu á að fjalla um. Stjórnarformaður útgáfufélags Central Banking er fyrrum ritstjóri The Banker og í ráðgjafastjórn þess sitja nóbelsverðlaunahafar í hagfræði auk fyrrum seðlabankastjóra frá Asíu, Evrópu og Ameríkuálfunum. Á meðal þeirra er Jean-Claude Trichet, sem var stýrði Seðlabanka Evrópu frá 2003 til 2011.