„Hvernig réttlætir félagsmálaráðherra að fötluðum manni hafi verið sparkað úr landi gagngert til að koma í veg fyrir að hann geti sótt réttlætið fyrir dómstólum?“ spurði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Fimmtán umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem sumir hverjir hafa dvalið á Íslandi í um tvö ár og höfðu sent beiðni um endurupptöku mála sinna til kærunefndar útlendingamála, voru fluttir í lögreglufylgd úr landi í leiguflugvél aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku. Áfangastaðurinn var Grikkland, ríki sem stjórnvöld hér skilgreina sem öruggt land þrátt fyrir ábendingar fjölmargra mannúðarsamtaka um allt annað.
Hussein Hassain er á meðal þeirra sem vísað var úr landi. Hann er í hjólastól og hefur leitað réttar síns fyrir dómstólum hér á landi. Kæran snýst um það sem hann telur brot á ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem og brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Málið verður tekið fyrir 18. nóvember, eftir ellefu daga.
Vísaði í endanlega niðurstöðu Útlendingastofnunar og kærunefndar
Guðmundur Ingi ræddi brottvísunina á Sprengisandi á Bylgjunni í gær og þar sem hann sagði vinnubrögð lögreglu hafa verið óásættanleg og telur hann tilefni til að taka umræðu um hvort Ísland vilji skera sig úr og hætta að senda flóttafólk til Grikklands. Andrés Ingi tók undir gagnrýni ráðherra á framkvæmdina sem hafi vissulega verið fullkomlega óboðleg og ætti ekki að sjást í siðuðu samfélagið. „En stóri glæpurinn í þessu er brottvísunin sjálf.“
Andrés Ingi spurði ráðherra ekki út í „þennan augljósa skort á mannúð í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur,“ beindi hann fyrirspurn sinni að því sem snertir málefnasvið ráðherrans.
„Hvernig réttlætir félagsmálaráðherra að fötluðum manni hafi verið sparkað úr landi gagngert til að koma í veg fyrir að hann geti sótt réttlætið fyrir dómstólum?“
Guðmundur Ingi benti á að það væri niðurstaða Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála, og dómstóla í einhverjum tilfellum, að endursendingar til Grikklands brjóti ekki gegn mannréttindasáttmála Evrópu eða 42. gr. útlendingalaga.
„Við vitum hins vegar öll að það eru ýmsir þröskuldar í Grikklandi sem er ekki hægt að horfa fram hjá. Þegar ég er spurður hvort það sé eitthvað sem réttlæti það að hafa tekið fatlaðan einstakling til að senda hann úr landi þá var það niðurstaða Útlendingastofnunar og kærunefndarinnar að gera það,“ sagði ráðherrann.
„Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála eru ekki endapunkturinn“
Andrés Ingi sagði það ekki vera endanlega niðurstöðu í þessu máli þó að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi komist að því að vísa eigi fötluðum einstaklingi á götuna þjónustulausum í Grikklandi.
„Maður hefði haldið ef ráðherrann hefði snefil af metnaði fyrir málefnum fatlaðs fólks að hann myndi vilja fá niðurstöðu í þetta umdeilda mál, að hann vildi fá að vita hvernig lögin liggja frekar en að sparka þessum einstaklingum úr landi til þess akkúrat að koma í veg fyrir að dómstólar sýni hvað er rétt og hvað ekki. Í staðinn ákveður ráðherrann að Jón Gunnarsson sé sá sem hefur rétt fyrir sér í þessu máli,“ sagði Andrés Ingi og hækkaði róminn.
„Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála eru ekki endapunkturinn þó að Jón Gunnarsson segi það. Félagsmálaráðherra þarf að átta sig á því ef hann ætlar að vera starfi sínu vaxinn,“ ítrekaði þingmaðurinn.
Guðmundur Ingi svaraði og sagðist ekki vera að tala um „eitthvað sem hæstvirtur dómsmálaráðherra hefur sett í hendur mínar heldur hef ég lesið þá úrskurði sem hér er um að ræða og vitna til þeirra, svo það sé alveg á hreinu.“
„Auðvitað er þetta mál óskaplega erfitt og það er erfitt að vita til þess að fólk hafi verið sent úr landi áður en mál þeirra var tekið fyrir hjá dómstólum. Ég held að við getum öll verið sammála um það,“ hélt hann áfram.
Fram kom í svari hans að hann vissi ekki af brottvísuninni fyrr en að henni kom, aðfaranótt fimmtudags, og sagði að standa verði betur að málum þegar kemur að brottflutningi.
„Því við erum með kerfi sem er þannig að við tökum ekki á móti öllum, við vitum það, og sérstaklega þegar um fatlað fólk er að ræða. Þá umræðu þurfum við að sjálfsögðu að taka og það ætla ég að gera með lögreglunni,“ sagði ráðherrann.