Eins og greint var frá í síðustu viku hefur Marigot keypt 60% hlut í vinnsluhluta starfsemi nýsköpunarfyrirtækisins Marinox ehf., þar sem Matís var meðal hluthafa. Um er að ræða þann hluta fyrirtækisins sem heldur utan um rannsóknir og vinnslu verðmætra hráefna úr hafinu, þang og þara.
„Við fögnum þessu spennandi samkomulagi sem hefur að markmiði að skapa fleiri störf og auka fjölbreytni atvinnulífsins hér á svæðinu. Miðað við áætlanir myndi verksmiðjan sjálf skapa 15 ársverk undir fullum afköstum auk starfa við þangslátt og söfnun, þróunar- og tæknivinnu auk annarra afleiddra starfa sem eru okkur í Stykkishólmi mikilvæg búbót í frekari atvinnuuppbyggingu. Bæjaryfirvöld eru núna að vinna í nauðsynlegum skipulagsmálum sem snúa að verkefninu, sem við vonum að gangi eftir. Fyrirhugaður iðnaður þyrfti m.a. að hafa beinan aðgang að góðri hafnaraðstöðu fyrir allstór flutningaskip og til að landa þangi úr flutningaprömmum og skipum sem flytja þang frá sláttuprömmum á Breiðafirði. Við munum skoða þetta verkefni með stjórnvöldum,“ segir Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, í fréttatilkynningunni.
Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís, fagnar samkomulaginu sem náðst hefur og segist bjartsýnn á að ný tækifæri skapist. „Matís hefur í gegnum tíðina skapað sér öflugt orðspor á vettvangi rannsókna og nýsköpunar í matvælaframleiðslu og líftækni. Aðkoma okkar að starfsemi Deltagen Iceland verður í gegnum starf vísindamanna Matís þar sem mikil þekking er til staðar á vannýttum afurðum á borð við þang og þara. Með því að styðja við nýsköpun starfsmanna Matís með þessum hætti erum við að stuðla að nauðsynlegum hvata til að þróa hugmyndirnar áfram og búa til verðmætar vörur og efla þannig íslenskt atvinnulíf. Það er í raun eitt meginhlutverk Matís,“ segir Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís.