Vísir.is, frétta- og afþreyingavefur 365 miðla, er fjölsóttasti vefmiðill landsins samkvæmt nýjum tölum úr vefmælingum Modernus sem birtust rétt í þessu. Það er í annað sinn sem Vísi tekst að verða stærri en mbl.is, frétta- og afþreyingarvefur Morgunblaðsins/Árvakurs, sem hefur verið ráðandi á vefmiðlamarkaði árum saman.
Fyrra skiptið sem Vísir komst yfir mbl.is var í október í fyrra. Þá var ástæðan stóraukin erlend umferð, en samkvæmt mælingum þá komu 71 prósent umferðarinnar um Vísi frá Íslandi en 29 prósent erlendis frá. Myndband af ungu fólki að velta bíl í bílakjallara Höfðatorgs var helsta ástæðan fyrir mikilli eftirsókn erlendra aðila á síðuna á þeim tíma, enda var ensk útgáfa af frétt Vísis af því tekin upp á risastórum alþjóðlegum síðum á borð við Livelink og Reddit.
Í vikunni sem leið komu hins vegar tæplega 83 prósent allra notenda Vísis.is, sem voru 558 þúsund, frá Íslandi. Til samanburðar komu 85 prósent notenda mbl.is, sem voru 555 þúsund, frá Íslandi. Það var því ekki erlend umferð sem réð úrslitum í þetta sinn.
Fréttavefur Kjarnans, sem hefur verið í loftinu í um fjóran og hálfan mánuð, er í tólfta sæti yfir mest lesnu vefsíður landsins.