Fjármálaeftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að Straumur fjárfestingabanki hf., Sigla ehf. og Arkur ehf., séu hæf til að fara með virkan eignarhlut í MP banka hf., sem nemur 25%, sbr. VI. kafla laga nr. 161/2002. Fjármálaeftirlitið hefur metið að samstarf sé um hinn virka eignarhlut, samkvæmt tilkynningu sem birtist á vef FME í gær, á milli Straums fjárfestingabanka hf., sem eignast hefur 19,54% í MP banka hf., Siglu ehf., sem átti fyrir 0,94% og Arks ehf., sem átti fyrir 2,56% hlut í MP banka. „Samstarfið telst vera til staðar vegna eigna- og stjórnunartengsla sem eru með aðilunum,“ segir í tilkynningu frá FME.
Eins og Kjarninn greindi frá 6. nóvember síðastliðinn þá hafa verið þreifingar í gangi meðal stjórnenda og hluthafa Straums, MP banka og Íslenskra verðbréfa um að sameina fyrirtækin þrjú í eitt. Ekkert liggur þó fyrir um það ennþá.
Straumur keypti 64,3 prósent hlut Sævars Helgasonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, í gegnum félagið Gunner ehf., í Íslenskri eignastýringu ehf., sem á 21,83 prósent hlut í Íslenskum verðbréfum.
MP banki,Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) og félag í eigu Garðars K. Vilhjálmssonar keyptu 27,5 prósent hlut Íslandsbanka í Íslenskum Verðbréfum í október. Straumi býðst síðan að ganga inn í tilboð í aðra hluti í ÍV á grundvelli forkaupsréttarákvæðis, en mál eru þó ekki komin svo langt.