Í grein sem Ásbjörn Björgvinsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands (FSÍ), sendi Fréttablaðinu á föstudaginn til birtingar, lýsir hann yfir eindregnum stuðningi við Náttúrupassa iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Kjarninn hefur grein Ásbjarnar undir höndum, sem hefur enn ekki verið birt, en hún ber fyrirsögnina: Náttúrupassa: „JÁ TAKK.“ Stjórnarmenn í FSÍ eru ósáttir við að samtökin séu bendluð við skoðanir formannsins.
Í greininni skrifar Ásbjörn: „Eftir ítarlega yfirlegu og skoðun á valkostunum tel ég að Náttúrupassinn sé sú gjaldtökuleið sem kemst næst því að vera sanngjörnust úr því að aðrar leiðir reynast vandrataðar eða ófærar út frá ýmsum ástæðum. Það er þegar búið að skerða almannaréttinn þótt núverandi tilllaga skerði hann enn frekar, við erum alltaf hrædd við breytingar en það sem var er ekki og það sem er verður ekki.“
Óánægja innan stjórnar FSÍ
Ásbjörn hvetur til málefnalegrar umræðu um Náttúrupassann. Í upphafi verði aðeins um tíu til tólf ferðamannastaði að ræða þar sem einstaka gestir verði krafnir um passann, það er þar sem álagið og aðsóknin er mest. „Aðrir staðir sem sækja um að gerast þáttakendur geta sótt um 100% framlag til endurbóta, uppbyggingar og reksturs að því gefnu að ekki verði rukkað inn á viðkomandi staði. Það er því hvati til að gerast þáttakandi í Náttúrupassanum til að fá framlög til úrbóta, lagfæringa og reksturs. Það eru mörg önnur atriði sem ræða má um útfærsluleiðir en gerum það af einhverri sanngirni og án fordóma fyrirfram. Nú er mál að linni því við verðum að fara að ræða okkur að sameiginlegri lausn því náttúran verður að fá forgang áður en við verðum náttúrulaus.“
Undir greinina er höfundur réttilega titlaður sem formaður Ferðamálasamtaka Íslands. Hann hefur áður skrifað grein til stuðnings Náttúrupassanum, sem birtist 10. desember síðastliðinn, en samkvæmt heimildum Kjarnans olli sú grein töluverðum titringi á meðal félagsmanna FSÍ.
Samkvæmt heimildum Kjarnans gætir óánægju á meðal stjórnarmanna FSÍ með að Ásbjörn sé titlaður sem formaður samtakanna undir greininni, og óttast að afstaða hans verði heimfærð yfir á samtökin, en innan þeirra eru mjög skiptar skoðanir um ágæti Náttúrupassans.
„Ég fékk alveg fréttir af því að félagar mínir í stjórninni, eða allavega einn eða tveir sem ég heyrði í, voru ekki sáttir við það að ég notaði titilinn minn undir grein sem þeir höfðu ekki kvittað upp á. En ég er ekkert að tala þarna fyrir hönd Ferðamálasamtaka Íslands,“ segir Ásbjörn Björgvinsson í samtali við Kjarnann. „En ég er formaður samtakanna og ég get ekkert neitað því. Ég veit að ég er að róa á móti straumnum með mínum skoðunum, en ég tel umræðuna um Náttúrupassann hafa einkennst svolítið af gífuryrðum og vanþekkingu.“
Ferðamálasamtök Íslands er samstarfsvettvangur átta landhlutasamtaka sem vinna að framgangi ferðamála hver á sínu svæði. Stjórn FSÍ samþykkti á síðasta fundi sínum að beina því til stjórna aðildarfélaga samtakanna að þau verði lögð niður á næsta aðalfundi.