Mjög naumur meirihluti Íslendinga styður veiðar á hrefnu og 42,6 prósent þeirra styðja veiðar á langreyði. Stuðningur við hvalveiðar hefur dregist mjög saman á síðustu tveimur árum en er samt sem áður enn meiri en andstaða við þær. Einungis 18,3 prósent Íslendinga segjast andvígir veiðum á hrefnu og 23,3 prósent eru andvígir veiðum á langreyðum. Alls segjast 31,6 prósent landsmanna hvorki vera andvígur né fylgjandi veiðum á hrefnum. 34,1 prósent segjast ekki hafa neina sérstaka skoðun á veiðum á langreyðum.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í könnun sem Gallup gerði í október fyrir Alþjóðadýravelferðarsjóðinn(IFAW) í samstarfi við Náttúruverndarsamtök Íslands.
Átta af hverjum tíu kaupa aldrei hvalkjöt
Þótt fleiri Íslendingar styðji hvalveiðar en eru á móti þeim hefur orðið marktæk breyting á hlutfalli þeirra á síðustu tveimur. Þegar Gallup spurði sömu spurninga í október 2013 sögðust 56,9 prósent vera fylgjandi því að veiða langreyði og 65,7 prósent fylgjandi hrefnuveiðum. Stuðningur við veiðarnar hefur því farið hratt minnkandi.
Sá hópur sem styður hvalveiðar síst eru yngstu íbúar höfuðborgarsvæðisins og konur.
Í niðurstöðum Gallup kemur einnig fram að 81,7 prósent aðspurðra sögðust aldrei hafa keypt hvalkjöt síðustu tólf mánuði. Í tilkynningu frá IFAW og Náttúruverndarsamtökum Íslands segir að svo hátt hlutfall hafi ekki mælst frá því árið 2005. Aðeins þrjú prósent segjast hafa keypt hvalkjöt sex sinnum eða oftar síðustu tólf mánuði.