Stuðningur við ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks mælist nú 36,4 prósent en mældist 34,1 prósent í síðustu mælingu, sem lauk þann 29. janúar, og 34,8 prósent um miðjan janúar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá MMR í tilefni nýrrar könnunar á fylgi stjórnmálaflokkanna sem framkvæmt var 13. til 19. febrúar.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 25,5 prósent, borið saman við 24,9 prósent í síðustu könnun. Fylgi Bjartrar framtíðar mældist nú 15,0 prósent, borið saman við 16,8 prósent í síðustu könnun. Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 14,5 prósent, borið saman við 14,7 prósent í síðustu könnun.
Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 13,1 prósent, borið saman við 12,7 prósent í síðustu könnun. Fylgi Vinstri-grænna mælist nú 12,9 prósent, borið saman við tólf prósent í síðustu könnun og fylgi Pírata mælist nú 12,8 prósent, borið saman við fjórtán prósent í síðustu könnun.
Mikilvægt er að taka fram að allar niðurstöður hafa einhver vikmörk sem miðað við 1000 svarendur geta verið allt að +/-3,1 prósent, það er að líklegt sé að raunverulegt fylgi viðkomandi flokks, eða þess sem mælt er, geti verið einhversstaðar á bili sem er 3,1 prósent hærra eða lægra en niðurstaða könnunarinnar gefur til kynna.