Stjórn útgáfélags Stundarinnar, sem gefur út mánaðarlegt áskriftarblað og rekur fréttavef, hefur heimilað hlutafjáraukningu sem nú stendur yfir. Þetta kemur fram í athugasemd frá stjórninni á síðu fjölmiðlanefndar þar sem eignarhald miðilsins er tilgreint.
Í dag eru eigendur Stundarinnar fimm talsins. Félagið Góður punktur ehf, í eigu Reynis Traustasonar, fyrrum ristjóra DV og eiginkonu hans, á 20 prósent, ritstjórar Stundarinnar, þau Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir eiga sinn fimmtungin hvor og það eiga Heiða B. Heiðars og Jón Ingi Stefánsson, sem bæði starfa á Stundinni, líka.
Í DV í dag er sagt frá því að samkvæmt heimildum blaðsins hafi eigendur Stundarinnar meðal annars rætt við fjársterka einstaklinga úr íslensku viðskiptalífi um að gerast hluthafar. Þar er einnig rætt við Ingibjörgu Dögg sem segir að hópurinn sem stofnaði Stundina muni áfram eiga meirihluta í henni en að lagt verði upp með að fá sem flesta með í liðið og hafa eignarhaldið sem breiðast. Nýir hluthafar geti ekki keypt sig inn í félagið fyrir hærri upphæð en tvær og hálfa milljón króna.
Stundin hóf starfsemi í upphafi árs. Að miðlinum stendur hópur sem áður stýrði DV, en var ýtt frá eftir eigendaátök síðsumars 2014. Fé til rekstursins var safnað í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Karolina Fund þar sem hún setti ýmis met. Takmarki söfnunarinnar var meðal annars náð á tveimur sólarhringum og alls söfnuðu þau 45 þúsund evrum, um 6,7 milljónum króna. Ítarlega var fjallað um verkefnið í Kjarnanum á sínum tíma.