Sturla Jónsson, þekktastur fyrir störf sín sem vörubílsstjóri og fyrir að bjóða fram stjórnmálaflokkinn Sturla Jónsson í síðustu alþingiskosningum, er að velta fyrir sér forsetaframboði. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Sturla setti á Facebook seint í gær.
Ég er að velta fyrir mér forseta framboði í þeirri von um að fólk vilji raunverulega breytingar.Posted by Sturla Jonsson on Sunday, August 23, 2015
Auglýsing
Hann bætist þar með í hóp með blaðamanninum Ómari Valdimarssyni, sem greindi frá því í lok júlí að hann íhugi að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands á næsta ári, þegar yfirstandandi kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar rennur sitt skeið. Þegar hefur verið stofnuð Facebook-síða þar sem skorað er á Ómar að bjóða sig fram, undir yfirskriftinni „Ómar Valdimarsson á Bessastaði 2016,“ sem 104 hafa lækað við til þessa. Nokkuð fleiri, eða 113, hafa lækað við stöðuuppfærslu Sturlu þar sem hann opinberaði vangaveltur sínar um framboð. Auk þess hvetja nokkrir einstaklingar Sturlu til dáða í ummælum við stöðuuppfærsluna.
Umræðan komin á fullt
Þótt enn sé ár til forsetakosninga, og nokkrir mánuðir þar til að Ólafur Ragnar tilkynntir hvort hann bjóði sig aftur fram, þá er umræða um forsetakosningarnar komin á fullt. Óperusöngvarinn Bergþór Pálsson sagði frá því fyrr í mánuðinum að hann hefi velt hlutverki forseta Íslands, mikilvægi þess fyrir þjóðina og kostum sínum og göllum til að sinna embættinu mikið fyrir sér í kjölfar þess að margir hafa hvatt hann til að bjóða sig fram í það sumarið 2016. Bergþór segist ekki vera kominn á þá niðurstöðu að kostir hans vegi þyngra en þó sé ekki tímabært að ákveða eitt eða neitt.
Í þjóðarpúlsi Gallup, sem var birtur í lok júlí, sögðust sex af hverjum tíu aðspurðum ekki vita ekki hvern þeir vilja sem næsta forseta Íslands. Ellefu prósent þjóðarinnar sem hefur myndað sér afstöðu gagnvart spurningunni vildu Ólaf Ragnar Grímsson áfram á forsetastóli en 21 prósent aðspurðra vilja fá Jón Gnarr í hann.
Þegar einungis var tekið tillit til þeirra sem tóku afstöðu til sérstaks frambjóðenda þá kom í ljós að 21 prósent vildu fá Jón Gnarr, fyrrum borgarstjóra Reykjavíkur, sem næsta forseta Íslands. Þá nefndu 17 prósent Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, sem þann sem þeir vilja í embætti forseta Íslands. Mun fleiri nefndu nöfn þeirra tveggja en nafn Ólafs Ragnars Grímssonar, sem mun hafa setið í forsetaembætti í 20 ár þegar kosið verður á næsta ári. Vert er að taka fram að bæði Jón og Katrín hafa gefið það út að þau sækist ekki eftir því að verða næsti forseti Íslands.