Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,5%, að því er segir í tilkynningu frá nefndinni.
Samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum var hagvöxtur á sl. ári 1,9%, sem er í takt við það sem Seðlabankinn áætlaði í febrúar. Nýju gögnin staðfesta það mat nefndarinnar, sem fram kom í síðustu yfirlýsingu, að fyrri áætlanir um hagvöxt á fyrstu þremur fjórðungum ársins hafi falið í sér vanmat og breyta því ekki í meginatriðum mati nefndarinnar á nýlegum hagvexti og efnahagshorfum.
„Verðbólga hefur mælst 0,8% undanfarna mánuði og lítils háttar lækkun verðlags mælist sé horft fram hjá áhrifum húsnæðiskostnaðar. Lítil alþjóðleg verðbólga og stöðugt gengi krónu halda aftur af verðbólgu og vega á móti áhrifum töluverðra launahækkana innanlands. Verðbólguvæntingar höfðu lækkað í markmið í upphafi árs. Vísbendingar eru hins vegar um að þær hafi hækkað á ný undanfarnar vikur sem mögulega endurspeglar væntingar um að niðurstaða komandi kjarasamninga muni ekki samrýmast verðbólgumarkmiðinu,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.
Litla verðbólgu að undanförnu má að nokkru leyti rekja til lækkunar alþjóðlegs eldsneytisverðs, segir nefndin. „Lækkunin er hins vegar utan áhrifasviðs peningastefnu hér á landi auk þess sem hjöðnun verðbólgu sem af henni leiðir er tímabundin. Þá ríkir mikil óvissa um horfur á vinnumarkaði um leið og vísbendingar eru um öflugan hagvöxt á næstu misserum. Af þessum sökum telur peningastefnunefndin sem fyrr rétt að staldra við uns efnahagshorfur hafa skýrst frekar, einkum varðandi launaþróun,“ segir í yfirlýsingunni.