Nýr sjónvarpsþáttur í umsjón Boga Ágústssonar, fréttamanns og fyrrverandi fréttastjóra RÚV, Þórhildar Þorleifsdóttur, fyrrverandi leikhússtjóra Borgarleikhússins, og Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, er í burðarliðnum hjá RÚV, en umræðuþátturinn hefur hlotið nafnið Hringborðið.
Fyrsti þátturinn fer í loftið mánudagskvöldið 8. desember næstkomandi, og verður framvegis mánaðarlega á dagskrá á eftir tíu-fréttum sjónvarps. Þátturinn er hugarfóstur Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra.
Bogi Ágústsson, fréttamaður og fyrrverandi fréttastjóri RÚV.
Auk þremenninganna verða tveir gestir í hverjum þætti, þar sem ýmist verða rædd helstu málefni líðandi stundar, eða þau mál sem ritstjórn þáttarins vill vekja umræðu um.
„Uppbyggilegur umræðuþáttur“
Útvarpsstjóri segir að þátturinn eigi að vera uppbyggilegur umræðuþáttur þar sem fólk með víðtæka reynslu og þekkingu á íslensku samfélagi ræðir málefni líðandi stundar. „Umsjónarmennirnir eiga það sameiginlegt að hafa mikla yfirsýn og muna tímana tvenna. Við vonumst til að þátturinn muni setja málefni dagsins í dag í stærra samhengi og skauta hjá því argaþrasi sem einkennir umræðuna oft og tíðum. Okkur hefur stundum þótt skorta nokkuð á að raddir hinna reynslumeiri heyrist nægjanlega oft í íslenskum fjölmiðlum en við teljum að með þessu séum við að vissu leyti að bæta úr því. Ég á því von á litríkum og uppbyggilegum umræðuþætti þar sem tekist verður á af miklu krafti um þau málefni sem skipta þjóðina öllu máli, í dag og ekki síst til framtíðar litið,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segir umsjónarmenn þáttarins sannarlega uppfylla ofangreindar kröfur. „(Þetta er) afar reynslumikið fólk sem á það sameiginlegt að hafa betri og dýpri skilning á íslenskum þjóðmálum en flestir aðrir og munu þau með aðstoð vel valdra viðmælenda sem flestir hverjir deila þessari reynslu – en eru ekkert endilega sammála þeim um hvernig túlka beri söguna og hvaða lærdóm við getum dregið af henni“ segir Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV.
Reynsluboltarnir Styrmir og Þórhildur
Þórhildur Þorleifsdóttir er fædd árið 1945 og er því 69 ára gömul. Hún sat á Alþingi fyrir Kvennalistann á árunum 1987 til 1991 og var á framboðslista Lýðræðisvaktarinnar í síðustu Alþingiskosningum. Hún var kosin til setu á stjórnlagaþingi, sem átti að gera tillögur til breytinga á stjórnarskrá Íslands, og var síðar skipuð í stjórnlagaráð sem hafði sama tilgang. Þórhildur var, eins og áður segir, leikhússtjóri Borgarleikhússins á árunum 1996 til 2000.
Þórhildur Þorleifsdóttir, fyrrverandi Borgarleikhússtjóri.
Styrmir Gunnarsson er fæddur 1938, og er því 76 ára gamall. Hann hóf störf á Morgunblaðinu 2. Júní 1965 og varð ritstjóri blaðsins 1972. Styrmir sat á ritstjórnarstóli í 36 ár. Hann lét af því starfi 2. júní 2008, nákvæmlega 43 árum eftir að hann hóf störf á blaðinu.
Nýverið kom út bók eftir Styrmi sem heitir Í köldu stríði – Vinátta og barátta á átakatímum. Þar greinir Styrmir meðal annars frá því að hann hafi hitt flugumann úr röðum kommúnista um árabil og skrifað skýrslur um það sem maðurinn sagði honum. Skýrslurnar voru sendar til Bjarna Benediktssonar, þáverandi dómsmálaráðherra, og Geirs Hallgrímssonar, þáverandi borgarstóra. Auk þess grunaði Styrmi að skýrslunar hafi verið sendar í bandaríska sendiráðið við Laufásveg. Efni þeirra birtist einnig í fréttaskrifum í Morgunblaðinu.