Eftir frábæra frammistöðu í undanförnum leikjum er íslenska karlalandsliðið í fótbolta nú í dauðafæri með að komast í fyrsta skipti á stórmót í vinsælustu íþróttagrein heims. Liðið etur kappi við það tékkneska á Laugardalsvelli í kvöld, en með sigri kemst íslenska liðið á topp A-riðils í undankeppni Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í Frakklandi á næsta ári.
Ef svo fer að Hollendingar tapa sínum leik, eða ná aðeins jafntefli, á móti Lettum á útivelli á sama tíma, má segja að íslenska liðið sé komið með annan fótinn til Frakklands, en þá getur munað allt að átta stigum á liðunum. Ef Ísland hins vegar tapar og Hollendingar vinna, munar bara tveimur stigum á liðunum, en næsti leikur Íslands fer einmitt fram í Amsterdam þann 3. september næstkomandi.
Næstu tveir leikir íslenska karlalandsliðsins í undankeppni EM 2016 eru því gríðarlega mikilvægir. Ísland getur komið sér í vænlega stöðu fyrir leikinn gegn Hollendingum með sigri gegn Tékkum í kvöld, sér í lagi þar sem næstu tveir leikir liðsins á eftir Hollandsleiknum eru gegn slakari mótherjum á heimavelli; Kasakstan og Lettlandi.
Uppgangur íslenskrar knattspyrnu hefur verið lyginni líkastur á undanförnum árum. Á árunum fyrir hrun, þar sem ódýrt útlenskt lánsfé streymdi til Íslands, spruttu knattspyrnuhús upp eins og gorkúlur. Því má segja að framgangur íslenska fótboltans sé einn fárra jákvæðra þátta sem komu út úr íslenska efnahagshruninu.
Þó viðstaddir verði ef til vill ekki vitni að sögulegri stund á Laugardalsvellinum í kvöld, þá styttist óðum í hana. Framtíð íslensks fótbolta er björt.