Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) styður áform Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að leggja aftur fram frumvarp sitt, um að takmarka aðgengi almennings að upplýsingum úr álagningar- og skattskrám og birtingu þeirra. „Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi verið þeirrar skoðunar að birting skránna brjóti gegn stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs og sé með öllu óeðlileg,“ segir í yfirlýsingu frá SUS sem send var fjölmiðlum. Ungir sjálfstæðismenn skora á þingmenn að styðja frumvarp Sigríðar á næsta þingi, sem kveður á um takmarkað aðgengi að álagningarskrám. Í dag liggja álagningarskrár frammi á starfsstöðvðum embættis Ríkisskattstjóra í tvær vikur frá birtingu.
Í yfirlýsingu SUS segir að fjárhagsmálefni fólks séu meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi. „Það þurfa því að liggja gildar ástæður til grundvallar þeirri stefnu stjórnvalda að heimta þessar upplýsingar í krafti valds og leggja þær svo á glámbekk. Órökstuddar hugmyndir um að borgararnir eigi að hafa virkt eftirlit með því hvort nágranninn greiðir of lága skatta geta vart talist grundvöllur slíkrar valdbeitingar,“ segir SUS.
„Það þekkist varla í heiminum að hver sem er geti - í tvær vikur á hverju ári - skoðað skattgreiðslur annarra og reiknað þannig auðveldlega út laun þeirra. Þá verður sú framkvæmd ríkisskattstjóra að taka saman lista yfir þá skattgreiðendur sem greiða mestan skatt og senda þá á fjölmiðla að teljast ámælisverð. Engin heimild er fyrir slíkri framkvæmd í núgildandi lögum og verður hún ekki varin með vísan til langrar venju.
Þá má benda á að birting upplýsinga um tekjur einstaklinga er til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem hefur viðgengist á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum samningum. Með því að skylda ríkisskattstjóra til að leggja þessar viðkvæmu upplýsingar á glámbekk gerir ríkisvaldið þennan trúnað að engu.“
Telur að birta ætti skrárnar mánaðarlega
Álagningaskrár Ríkisskattstjóra eru birtar í seinni hluta ár hvert og verða iðulega til umræðu og skoðanaskipta um réttmæti opinberar birtingar. Gunnar Th. Kristjánsson, staðgengill skattrannsóknarstjóra, sagði í Fréttablaðinu í dag að hann telji að birta ætti skrárnar mánaðarlega. Hann segir að hvernig sem á það sé litið felist fælingarmáttur í að birta skrárnar opinberlega. „Annars væri enginn tilgangur í birtingunni.“
Gunnar segir að fjöldi ábendinga berist embætti skattrannsóknarstjóra fyrstu dagana og vikurnar eftir að álagningarskrárnar eru birtar. Allur gangur sé þó á því hvort þær eigi við rök að styðjast. Steinþór Haraldsson, staðgengill ríkisskattstjóra, segir embættið ekki hafa skoðun á því hvort birta eigi upplýsingarnar og að hann hafi ekki forsendur til að meta hvort birting þeirra hafi fælingarmátt. „En auðvitað getur maður ímyndað sér það að fólk vilji ekki láta sjá einhvern núll tax á opinberum vettvangi.“
Í Fréttablaðinu er einnig greint frá norskri rannsókn sem sýndi að skattskil þar í landi hafi batnað um þrjú prósent eftir að upplýsingar um skattgreiðslur einstaklinga urðu aðgengilegar á netinu árið 2001. Áður hafði birting þeirra verið með svipuðu sniði og hérlendis.
Frumvarpið aftur lagt fram
Deilur um aðgang almennings að álagningaskrám skattstjóra spretta upp árlega hérlendis. Á síðasta þingi lögðu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Á. Andersen og Birgir Ármannsson, fram frumvarp um breytingar á lögum um tekjuskatt sem felur í sér að álagningarskrárnar verði ekki lengur lagðar fram. Sigríður sagði í samtali við RÚV í vikunni að hún telji „að almenningur ætti að verja tíma sínum í eitthvað skemmtilegra og þarfara en að hnýsast gegnum skráargatið til annarra manna“.
Frumvarp Sigríðar og Birgis náði ekki fram að ganga á síðasta þingi en hún segist ætla að leggja það aftur fram á haustþingi og að hún hafi stuðning þingflokks Sjálfstæðisflokks í málinu.