Samkvæmt heimildum Kjarnans mun Svavar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður á RÚV og Stöð 2, taka við stöðu framkvæmdastjóra hjá Landssamtökum sauðfjárbænda á morgun.
Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir í samtali við Kjarnann, að stjórn samtakanna hafi ákveðið að setja sig í samband við Svavar til að bjóða honum framkvæmdastjórastöðuna fljótlega eftir að Sigurður Eyþórsson lét af störfum sem framkvæmdastjóri þeirra þann 1. apríl síðastliðinn, og samningaviðræður hafi gengið vel.
„Þetta er bara maður sem hefur áhuga á íslenskum mat og hefur til að mynda skrifað bækur og framleitt sjónvarpsþætti um áhugamál sitt. Ég hafði nú bara hitt hann einu sinni áður en við ákváðum að hafa samband við hann, en mér fannst hann hafa spennandi hugmyndir þannig að ég ákvað bara að slá á þráðinn til hans og kanna hvort kall væri til,“ segir formaður Landssamtaka sauðfjárbænda í samtali við Kjarnann, aðspurður um ákvörðun samtakanna að falast eftir starfskröftum Svavars Halldórssonar.
Vilja markaðssetja lambakjötið enn frekar
Þórarinn Ingi segir stjórn samtakanna hafa miklar væntingar til samstarfsins við fréttamanninn fyrrverandi. „Það er ekkert launungarmál að við erum stanslaust að velta fyrir okkur hvernig við getum markaðssett lambakjötið betur fyrir neytandanum, og teljum Svavar vera mjög efnilegan mann til þess að auka hróður lambakjötsins enn frekar.“
Frá því að Svavar lét af störfum sem fréttamaður hjá RÚV í marsmánuði árið 2013, hefur hann rekið fyrirtækið sitt Íslenskur matur og matarmenning. Fyrirtækið framleiðir sjónvarpsþætti og annað fjölmiðlaefni, sinnir almannatengslum og ráðgjöf, auk þess að reka heilsölu og netverslun.
Svavar hefur átt sæti í stjórnum Félags Fréttamanna á RÚV sem og Blaðamannafélags Íslands og var um tíma flokksbundin sjálfstæðismaður. Þá gegndi hann stöðu formanns hjá Stefni - félagi ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði á sínum yngri árum. „Haraldur Benediktsson er nú sjálfstæðismaður líka,“ segir Þórarinn og hlær. „Menn þurfa ekkert endilega að vera framsóknarmenn til að vinna fyrir sauðfjárbændur. Ég er ekkert að spá í neina pólitík í þessu, enda á hún ekki að skipta máli í þessu verkefni,“ segir formaður Landssamtaka sauðfjárbænda í samtali við Kjarnann.