Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Datacell, telur að Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Valitor, hafi brotið siðareglur lögmanna í bréfaskrifum sínum í tengslum við Wikileaks-málið svokallaða, með því að beina hótun að sér persónulega. Hann hyggst senda Lögmannafélagi Íslands formlega kvörtun vegna framkomu Sigurðar G. Þetta staðfestir Sveinn Andri í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans.
Í frétt sem birtist á vefmiðlinum Vísi í dag er greint frá hótun sem birtist í svarbréfi Sigurðar G., fyrir hönd Valitors, við greiðsluáskorun Datacell og Sunshine Press Productions til Valitors, útgefanda VISA-greiðslukorta á Íslandi. Fyrirtækin tvö, það er Datacell og Sunshine Press, sáu um að halda utan um styrktarfé til handa Wikileaks.
Fyrrverandi skjólstæðingur Sigurðar G. áætlaði tjón
Hæstiréttur staðfesti í apríl árið 2013 að Valitor hafi verið óheimilt að loka fyrirvaralaust greiðslugátt fyrir styrki til Wikileaks, og gerði greiðslumiðlunarfyrirtækinu að opna greiðslugáttina að nýju að viðlögðum dagsektum.
Fyrirtækin Datacell og Sunshine Press Productions fengu Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og skjólstæðing Sigurðar G. Guðjónssonar, til að áætla tjón sitt vegna lokunar greiðslugáttarinnar. Sigurjón áætlaði að tjónið gæti numið frá einum og upp í átta milljarða króna.
Nú hafa fyrirtækin tvö krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að Valitor verði tekið til gjaldþrotaskipta vegna ógreiddrar skaðabótakröfu sem hljóðar upp á 10,3 milljarða króna auk vaxta.
„Blasir við“ að Sigurður braut siðareglur lögmanna
Í áðurnefndri frétt Vísis í dag er sagt frá því að Sveinn Andri, lögmaður Datacell, og Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Valitors, hafi átt í bréfaskrifum áður en krafan um gjaldþrotaskiptin var lögð fram, eftir að greiðsluáskorun var send Valitor. Í fréttinni er vitnað orðrétt í svarbréf Sigurðar til Sveins Andra, en þar segir: „Verði af þeirri hótun þinni fyrir hönd umbjóðenda þinna að leggja fram kröfu um gjaldþrotskipti á hendur Valitor hf. munt þú persónulega og forsvarsmenn þeirra félaga og félögin sjálf verða gerðir ábyrgir in solidum fyrir öllu því tjóni sem Valitor hf. og hluthafa félagsins kunna að verða fyrir vegna þess að krafa um gjaldþrotaskipti er sett fram.“
Í 30. grein siðareglna lögmanna, sem finna má á vefsíðu Lögmannafélags Íslands, segir: „Lögmaður má ekki hóta lögmanni gagnaðila kæru eða lögsókn í því skyni að fá hann til að aðhafast eitthvað eða láta eitthvað ógert í máli gagnaðila.“
Í skriflegu svari Sveins Andra við fyrirspurn Kjarnans, segir hann Sigurð hafa brotið gegn ofangreindu ákvæði siðareglna lögmanna með bréfaskrifum sínum. „Ekki nokkur spurning. Blasir við. Ég mun senda inn kvörtun (til Lögmannafélags Íslands) í vikunni.“