Sverrir Guðnason hlaut sænsku kvikmyndaverðlaunin Gullbjölluna fyrir bestan leik í aðalhlutverki á verðlaunaafhendingu í gærkvöldi. Þetta er annað árið í röð sem Sverrir hlýtur Gullbjölluna fyrir frammistöðu sína, en í ár fékk hann þau fyrir leik sinn í aðalhlutverki í kvikmyndinni Flugparken. Í fyrra hlaut hann verðlaun fyrir aukaleik í myndinni Monica Z.
Sverrir var einnig tilnefndur sem besti leikari í aukahlutverki fyrir leik í myndinni Gentlemen, en sigraði ekki í þeim flokki. Sverrir er íslenskur að uppruna en hefur búið í Svíþjóð frá tólf ára aldri. Hann er 36 ára gamall. Hann á að baki farsælan feril í sænskum kvikmyndum, sjónvarpi og leikhúsi.