Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur að núgildandi löggjöf á Íslandi, varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum, brjóti í bága við EES-samninginn. Þetta kemur fram í nýju áliti ESA, sem stofnunin hefur sent íslenskum stjórnvöldum þar sem staðfest er samningsbrot íslenska ríkisins gagnvart skuldbindingum EES-samningsins. Stofnunin getur vísað málinu til EFTA-dómstólsins grípi stjórnvöld ekki til viðeigandi ráðstafana. Málið á rætur sínar að rekja til kvörtunar Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) sem samtökin sendu ESA í byrjun árs 2011.
Lárus M.K. Ólafsson, lögmaður SVÞ, segir samtökin fagna áliti ESA. "Niðurstaða stofnunarinnar er í fullu samræmi við þær ábendingar og rökstuðning sem fram kemur í erindi SVÞ til ESA í desember 2011. SVÞ telja að það hafi aldrei verið vafi á því að bann þetta felr í sér viðskiptahindranir í skilningi EES-samningsins sem og mismunun hvað varðar innflutning á fersku kjöti. Þá hafa SVÞ bent á að íslenska ríkið hafi ekki lagt fram vísindaleg gögn sem styðji svo viðamikið inngrip í fjórfrelsi EES-samningsins."
Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgang, hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alífuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.
Töldu SVÞ bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga. Þessu til viðbótar feli eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti í sér landamæraeftirlit sem sé ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins.
Lögin verði afnumin tafarlaust með lagabreytingu
"SVÞ eiga enn eftir að kynna sér álitið í heild sinni en hins vegar er krafa samtakanna í þessu máli óbreytt, að bann þetta sem komið á var á sínum tíma með lögum verði afnumið með lagabreytingu tafarlaust. Óbreytt ástand felur í sér verulegt óhagræði og fjárhagslegt tjón fyrir innflytjendur, verslun sem og neytendur í landinu. Hins vegar ber að geta þess að eitt aðildarfyrirtækja SVÞ hefur nú þegar stefnt íslenska ríkinu fyrir héraðsdóm Reykjavíkur vegna þessa innflutningsbann og verður málið tekið fyrir 14. október næstkomandi. Niðurstaða ESA er því kærkomin viðbót við fyrirliggjandi röksemdir í því máli," segir lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu.
SVÞ telja eðlilegt að íslenska ríkið grípi nú til viðeigandi ráðstafana til afnema umrætt bann til að tryggja eftirfylgni með skuldbindingum EES samningsins. Að öðrum kosti liggi fyrir að ríkinu verði stefnt af hálfu ESA fyrir EFTA dómstólinn þar sem ríkið hafi nú verið staðið að samningsbroti.