Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) telja að innflytjendur á sykruðum vörum, sem gjaldskyldar voru á grundvelli sykurskattsins svokallaða, kunni eftir atvikum að eiga bótarétt á hendur íslenskum stjórnvöldum sökum tjóns sem þeir kunna að hafa orðið fyrir vegna mismununar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SVÞ.
Samtökin sendu kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) þann 25. mars árið 2013, vegna sykurskattsins en að mati SVÞ fól innheimta skattsins í sér mismunum á milli innlendra framleiðenda og innflytjenda. Að mati samtakanna fólst mismununin í því að innlendum framleiðendum hafi staðið til boða að greiða sykurskattinn eftir á og þá í samræmi við það magn sem sannarlega var nýtt hverju sinni. Þannig hafi framleiðendur ekki þurft að greiða fyrir þær vörur sem til dæmis döguðu upp á vörulager þeirra. Hins vegar hafi innflytjendum borið að greiða fullann sykurskatt við innflutning á fullunnum vörum, og taka þannig um leið á sig öll afföll sem urðu á hinni gjaldskyldu vöru.
SVÞ töldu fyrirkomulagið fela í sér verulega mismunun varðandi framkvæmd gjaldtökunnar sem væri samræmdist ekki þeirri meginreglu ákvæða EES-samningsins um að gjöld skuli falla jafna á alla, óháð framleiðslulandi.
ESA leitaði skýringa hjá íslenskum stjórnvöldum í kjölfarið, en undir rekstri málsins hjá stofnuninni var sykurskatturinn svokallaði afnuminn, nánar tiltekið um síðustu áramót, og því má gera ráð fyrir að málinu sé lokið að svo stöddu af hálfu stofnunarinnar.
SVÞ telja hins vegar að umfjöllun ESA um máið feli í sér viðurkenningu á því að umrædd gjaldtaka hafi falið í sér mismunun eftir því hvort um var að ræða innlenda framleiðslu eða innfluttar vörur. „Þessu til viðbótar er það einnig vafa undirorpið hvort og hvernig þessi framkvæmd samrýmist jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins sem og jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar,“ segir í áðurnefndri tilkynningu frá SVÞ.
Þá segir þar að lokum: „Að mati SVÞ kemur því til álita að innflytjendur á vörum sem gjaldskyldar voru á grundvelli sykurskattsins kunni eftir atvikum að eiga bótarétt á hendur íslenskum stjórnvöldum sökum þess tjóns sem þeir kunna að hafa orðið fyrir vegna þessarar mismununar.“