Rétt tæplega 36 þúsund manns hafa nú skrifað undir undirskriftarlista til forseta Íslands um að hann vísi frumvörpum um makríl og fiskveiðistjórnunarkerfið í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þessi árangur hefur náðst áður en umræður á Alþingi um makrílfrumvarp sjávarútvegsráðherra eru hafnar af nokkurri alvöru. Þessi fjöldi gerir undirskriftasöfnunina „þjóðareign.is“ að einni af þeim fjölmennustu sem efnt hefur verið til hér á landi,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar.
Í söfnuninni er skorað er á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu væntanlegum lögum um úthlutun makrílkvóta og öðrum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.
Jón Steinsson hagfræðingur, Jón Sigurðsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, Guðrún Pétursdóttir, fyrrum forsetaframbjóðandi, Þorkell Helgason, fyrrverandi prófessor, Elín Björg Ragnarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, hagfræðingarnir Henný Hinz og Bolli Héðinsson og Agnar K. Þorsteinsson, sérfræðingur í upplýsingatækni standa að undirskriftasöfnuninni.
Undirskriftasöfnuninni mun ljúka skömmu eftir að Alþingi verður slitið samkvæmt tilkynningunni frá aðstandendum, en þeir benda á að fjöldi undirskrifta er kominn vel yfir 10 prósent kosningabærra manna, sem tillaga Stjórnlagaráðs gerði ráð fyrir sem nægjanlegum fjölda undirskrifta sem þyrfti til að krefjast þjóðaratkvæðis um einstök þingmál.
Aðstandendur segja þátttökuna sýna fram á hina „gríðarlegu undirliggjandi óánægju í samfélaginu um skipan sjávarútvegsins og að auðlind í almannaeigu, fiskveiðiheimildunum, skuli úthlutað með þeim hætti sem nú er gert. Slíkt ætti að verða ríkisstjórninni hvatning til að leita raunverulegra sátta við þjóðina um hvernig standa eigi að úthlutun fiskveiðiheimilda í framtíðinni.“