Tæplega 60 prósent fanga sem sitja í íslenskum fangelsum eiga við vímuefnavanda að glíma og rúmlega 70 prósent þeirra eiga sögu um slíkan vanda. Af þeim föngum sem annað hvort eiga við vímuefnavanda að stríða eða eiga sögu um slíkan vanda skimast 81 prósent þeirra með athyglisbrest eða ofvirkni. Þetta kemur fram í óbirtir rannsókn sem Jón Friðrik Sigurðsson, Ingi Þór Eyjólfsson, Ingunn S.U. Kristiansen, Jónas Haukur Einarsson, Baldur Heiðar Sigurðsson, Halldóra Ólafsdóttir, Susan Young og Gísli H. Guðjónsson hafa framkvæmt. Enn er verið að ljúka gagnasöfnun í rannsókninni.
Niðurstöðurnar eru hins vegar birtar í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Páls Vals Björnssonar, þingmanns Bjartrar framtíðar, um afplánun í fangelsi.
Biðtími eftir afplánun lengist
Í svarinu kemur einnig fram að í fyrra liðu að meðaltali 383 dagar frá því að dómur var kveðinn upp í máli og þar til afplánun í fangelsi hófst hjá þeim sem hlaut dóminn. Það er töluverð aukning frá árunum áður. Árið 2012 liðu að meðaltali 350 dagar frá því að dómur var kveðinn upp og þar til afplánun í fangelsi hófst og árið 2013 var meðaltalið 367 dagar.
Sömu sögu er að segja um bið hjá þeim sem dæmdir eru til að sinna samfélagsþjónustu. Á árinu 2012 leið að meðaltali 521 dagur frá því að dómur var upp kveðinn þar til samfélagsþjónusta hófst. Árið 2013 var meðaltalið 537 dagar og árið 2014 575.
Páll Winkel fangelsismálastjóri sagði í þættinum Sjónarhorn á Hringbraut í lok apríl að rúmlega 400 fangar væru á bið eftir að geta afplánað dóm sinn.
Beðið eftir Hólmsheiði
Rúm 50 ár eru síðan að ákveðið var fyrst að byggja nýtt öryggisfangelsi á Höfuðborgarsvæðinu. Litla-Hraun hefur gegnt hlutverki stærsta öryggifangelsis landsins um áratugaskeið en ætið hefur verið ljóst að húsnæðið hentar ekki fullkomlega undir starfsemina, enda var Litla-Hraun byggt sem spítali, og að það er löngu hætt að geta tekið við öllum þeim fjölda sem það þarf að geta tekið við.
Alls eru fimm fangelsi á Íslandi. Fjögur þeirra eru lokuð: Litla-Hraun, Fangelsið á Akureyri og Hegningarhúsið við Skólavörðustíg.Auk þeirra eru opin fangelsi að Sogni og Kvíabryggju.
Kvennafangelsinu í Kópavogi var nýverið lokað og til stendur að loka Hegningarhúsinu, sem var tekið í notkun fyrir um 140 árum síðan og er á undaþágu frá heilbrigðisyfirvöldum vegna þess að það uppfyllir ekki lágmarksskilyrði. Nýtt öryggisfangelsi er nú í byggingu á Hólmsheiði og á að opna haustið 2015. Fangelsisrýmum fjölgar þá um 30 talsins.