Tæplega sex hundruð björgunarsveitarmenn hafa sinnt útköllum á landinu síðasta tæpa sólarhringinn vegna óveðursins sem gekk yfir landið. Mikið álag hefur verið á björgunarsveitarfólki allt frá Suðurlandi og norður til Akureyrar, eða frá því að fyrstu hjálparbeiðnirnar bárust um hádegisbilið í gær í Vestmannaeyjum og Grindavík. Þetta kemur fram í frétt mbl.is.
Nóttin var mjög erilsöm hjá lögreglu og björgunarsveitarmönnum á Akureyri, þar sem allt tókst á loft sem fokið gat, svo sem gámar, knattspyrnumörk, trampólín og tré. Á Akureyri fór að hvessa um ellefuleytið í gærkvöldi, en veðurofsinn náði svo hámarki milli klukkan eitt og tvö í nótt.
Þá liggur enn allt innanlandsflug niðri, en næst á að kanna með flug klukkan níu, samkvæmt upplýsingum frá Flugfélagi Íslands, að því er fram kemur í frétt mbl.is. Millilandaflug er hins vegar að færast aftur til fyrra horfs.