Af þeim 7.700 einstaklingum sem hafa leitað til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs frá upphafi hafa tæplega 3.800 manns útskrifast úr úrræðinu. Þrír af hverjum fjórum þessara einstaklinga eru virkir á vinnumarkaði, í virkri atvinnuleit eða lánshæfu námi.
Um 2.400 manns voru í þjónustu hjá VIRK í lok síðasta árs. Tæplega 1.800 einstaklingar komu nýir inn í þjónustu VIRK á árinu, sem eru um 9 prósentum fleiri en árið á undan. Að því er fram kemur í frétt frá VIRK eru vísbendingar um að aðsókn að sjóðnum gæti verið að ná jafnvægi eftir mikinn vöxt síðustu ár.
Framlög dregin verulega saman
Kjarninn greindi frá því fyrir jól að VIRK muni ekki taka við einstaklingum sem standa utan vinnumarkaðar, eru örorkulífeyrisþegar eða skjólstæðingar félagsmálastofnana á árinu. Þetta var tilkynnt til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, í kjölfar þess að fjárlög voru samþykkt. Í fjárlögum var gert ráð fyrir að framlag til VIRK yrðu 200 milljónir í ár, en samkvæmt lögum og samningum sem hafa verið undirritaðir átti framlag ríkisins til VIRK að vera 1,1 milljarður króna á árinu 2015. Þar sem ekki hafi verið staðið við samkomulag gæti VIRK ekki tekið einstaklinga í þjónustu sem ekki væri greitt iðgjald af.
VIRK er eini starfsendurhæfingarsjóður landsins og samkvæmt lögum eiga atvinnurekendur, lífeyrissjóðir og íslenska ríkið að fjármagna hann. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun en ekki opinber stofnun og því getur ríkið ekki tekið einhliða ákvörðun um niðurskurð hans. Ríkið átti síðan, samkvæmt lögunum sem samþykkt voru árið 2012 og samningum sem voru gerðir þegar VIRK var sett á fót, að greiða framlag til sjóðsins. Það framlag átti meðal annars að fjármagna starfsendurhæfingu þeirra einstaklinga sem eru atvinnulausir, þiggja örorkulífeyri eða eru skjólstæðingar félagsmálastofnana.
Stjórnarformaður VIRK sagði í bréfi sínu til félags- og húsnæðismálaráðherra að sjóðnum hafi verið mætt með óbilgjörnum kröfum um mikinn niðurskurð í starfsemi, þrátt fyrir að hún hafi skilað miklum ávinningi. Þá hafi virst sem svo að varasjóður sem byggður hafi verið upp til þess að mæta óvissri framtíð sjóðsins vera stjórnvöldum þyrnir í augum.
Eygló Harðardóttir sagði í kjölfar ákvörðunar VIRK að það væri ekki hlutverk VIRK að safna í sjóð. Uppi væri ágreiningur um framlög þeirra þriggja aðila sem eigi að leggja sjóðnum til fé. „Ég tel eðlilegt að lækka framlögin þannig að ekki verði óeðlileg sjóðssöfnun, aðhalds verði gætt í rekstrinum og að allir aðilarnir þrír greiði jafnt í sjóðinn,“ sagði hún þá.