Alls eru 49,1 prósent landsmanna andvígir því að ganga í Evrópusambandið en 32,8 prósent hlynnt því. 18,1 prósent er hvorki hlynntur né andvígur inngöngu í sambandið. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup vann fyrir Heimssýn, félags sjálfstæðissinna í Evrópumálum.
Andstaðan er mest á meðal kjósenda Framsóknarflokksins, en 85 prósent þeirra eru á móti inngöngu. Um 77 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru mótfallnir inngöngu og 44 prósent kjósenda Vinstri grænna.
Í tilkynningu frá Heimssýn segir ennfremur: "Athygli vekur að þeir sem myndu skila auðu eða ekki mæta á kjörstað ef nú yrði gengið til alþingiskosninga eru almennt andvígir inngöngu. Það sama má segja um þá sem nú myndu kjósa flokk eða framboð sem ekki á fulltrúa á Alþingi. Í þeim hópi eru 54% andvíg en 37% hlynnt aðild að sambandinu.
Samkvæmt könnuninni eru 42% Reykvíkinga andsnúnir aðild að ESB en 41% borgarbúa er hlynntur aðild. Munurinn er meiri í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Þar eru 45% andvígir aðild en 38% hlynntir henni. Munurinn er enn meiri í öðrum sveitarfélögum landsins en þar eru 59% íbúanna andvígir aðild að ESB en 21% hlynntir."
Í byrjun febrúar var greint frá annarri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir samtökin Já Ísland. Þar voru tæp 54% aðspurðra á móti aðild að ESB, en 46,2 prósent fylgjandi aðild. Þá var greint frá því að aldrei hefðu fleiri mælst fylgjandi aðild.