Það er fremur fátítt að börn á Íslandi skorti tiltekin lífsgæði, samkvæmt mati Hagstofu Íslands. Á þessu er ein undantekning sem er þátttaka í reglulegu tómstundastarfi. Árið 2014 var tæpur þriðjungur barna á Íslandi ekki í reglulegu tómstundastarfi en árið 2009 var hlutfallið 14,3%.
Árið 2014 bjuggu 11,4% barna á heimilum sem áttu mjög erfitt með að láta enda ná saman, 10% á heimilum undir lágtekjumörkum og 7,7% á heimilum sem skorti efnisleg gæði.
Þetta sýna tölur frá Hagstofu Íslands sem birtar voru í dag.
Hlutfall barna sem bjó á heimilum sem áttu mjög erfitt með að láta enda ná saman lækkaði um 2,9 prósentustig á milli ára, hlutfallið undir lágtekjumörkum um 2,2 prósentustig og hlutfallið sem skorti efnisleg gæði um 0,6%.
Árið 2013 var hlutfall barna á heimilum undir lágtekjumörkum á Íslandi það fimmta lægsta í Evrópu og hlutfall barna á heimilum sem skorti efnisleg gæði það sjötta lægsta. Hlutfall heimila barna sem áttu mjög erfitt með að láta enda ná saman er hinsvegar svipað og meðaltal evrusvæðisins, að því er segir í umfjöllun Hagstofu Íslands.