Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa komið fram ýmsar upplýsingar, við gagnaöflun í tengslum við undirbúning hópmálssóknar á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, sem benda til þess að rangar upplýsingar í reikningum Landsbankans hafi verið gefnar með saknæmum hætti og að undirlagi Björgólfs Thors.
Lögfræðistofan Landslög hefur að undanförnu unnið að undirbúningi á hópmálssókn á hendur Bjórgólfi Thor vegna meintra rangra og blekkjandi upplýsinga í reikningum Landsbankans, þar sem meðal annars skráning á raunverulegu eignarhaldi Björgólfs í bankanum var ábótavant.
Rangar og ófullnægjandi upplýsingar
Undirbúningur og gagnaöflun vegna málssóknarinnar hefur verið unnin í samstarfi við nokkra fyrrverandi hluthafa í Landsbankanum, meðal annars Vilhjálm Bjarnason, fjárfesti og Alþingismann, og Stapa lífeyrissjóð. Þá má nefna að fyrir um ári síðan fóru fram umfangsmiklar skýrslutökur í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir samstarfsmönnum Björgólfs Thors, fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans og endurskoðendum.
Málið verður höfðað af hluthöfum sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna hlutabréfakaupa í Landsbankanum frá árslokum 2005 fram að bankahruninu. Rökstuðningurinn verður reistur á því að rangar eða ófullnægjandi upplýsingar hafi verið gefnar í reikningum bankans um umfangsmiklar lánveitingar til Björgólfs Thors og raunveruleg áhrif hans og Samson í bankanum. Áhrifin hafi í raun verið slík að Samson hafi verið skylt að gera öðrum hluthöfum í Landsbankanum yfirtökutilboð, sem ekki hafi verið gert.
Öllum hluthöfum Landsbankans boðið að taka þátt
Eins og áður segir hafa ýmsar upplýsingar komið fram við gagnaöflun vegna hópmálssóknarinnar sem benda til að rangar upplýsingar í reikningum Landsbankans hafi verið gefnar með saknæmum hætti að undirlagi Björgólfs Thors. Landslög eru ekki tilbúin að veita frekari upplýsingar á þessu stigi, en lögfræðistofan hyggst kynna niðurstöður sínar innan tíðar. Á sama tíma verður öllum hluthöfum Landsbankans, sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni, boðið að taka þátt í hópmálssókninni á hendur Björgólfi Thor.
Fyrirhuguð málshöfðun, verður sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi er lýtur að dómsmálum tengdum bankahruninu, en málsóknin verður reist á nýlegum ákvæðum réttarfarslaga sem heimila hópmálssóknir.