Framkvæmdastjórn um losun fjármagshafta, sem skipuð var af stjórnvöldum í júlí síðastliðnum, hefur undanfarið fundað með slitastjórnum Glitnis, Landsbankans og Kaupþings, sem fara með þessi þrjú stærstu þrotabú Íslandssögunnar. Um er að ræða fyrstu formlegu fundi sem fulltrúar stjórnvalda hafa átt með þeim vegna mögulegrar losunar á fjármagnshöftum sem sett voru síðla árs 2008.
Í framkvæmdastjórn um losun fjármagnshafta sitja Glenn Victor Kim, fjármálaráðgjafi hjá LJ Capital, sem leiðir verkefnið, Benedikt Gíslason ráðgjafi, Eiríkur Svavarsson hæstaréttarlögmaður og Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabanka Íslands. Framkvæmdastjórnin heyrir undir stýrinefnd sem leidd er af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra.
Tveir skólar eru ráðandi um það hvernig eigi að ljúka skiptum búanna. Annar gengur út á að gera það með því að semja við slitastjórnir föllnu bankanna og kröfuhafa þeirra um að gera slíkt án þess að nauðasamningar ógni greiðslujöfnuði Íslands. Hin leiðin er svokölluð gjaldþrotaleið, sem gengur út á að knýja búin í þrot og að dótturfélag Seðlabanka Íslands eða skiptastjóri verði látinn taka yfir eignir þeirra og þær síðan seldar til nýrra eigenda. Afrakstrinum verði skipt milli kröfuhafa og þeir myndu fá allt sitt greitt í íslenskum krónum.
Samkvæmt þeim viðmælendum Kjarnans sem setið hafa fundi með framkvæmdastjórninni virðist helmingur hennar, Kim og Benedikt, vera á því að semja en hinn helmingurinn, Freyr og Eiríkur, vera hrifnari af gjaldþrotaleiðinni.
Mega ekki ógna greiðslujöfnuði
Slitastjórnir Kaupþings og Glitnis sóttu um undanþáguheimild frá fjármagnshöftum síðla árs 2012 til að ljúka nauðasamningum sínum. Seðlabankinn hefur sagt að ekki séu forsendur til að ljúka nauðasamningi með þeim hætti sem sóst var eftir. Frumforsenda þess að hægt sé að ljúka slíkum samningum sé að fyrir liggi nákvæm greining á eignum og endurheimtum þrotabúanna með tilliti til áhrifa á útgreiðslu þeirra til kröfuhafa á greiðslujöfnuð Íslands.
Slitastjórnirnar töldu sig hafa fengið skilboð um að í þessari viku yrðu lagðar fyrir þær upplýsingar um hvers konar skilyrði stjórnvöld teldu að þær þyrftu að uppfylla þannig að greiðslujöfnuði yrði ekki ógnað. Á fundunum með framkvæmdastjórninni kom hins vegar fram að ekkert slíkt stendur til strax.
Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um losun fjármagnshafta sem birtist í síðustu útgáfu Kjarnans.