Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor og ytri meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabankans, segir að á næstu mánuðum sé „nauðsynlegt að virkir vextir Seðlabankans hækki nægilega mikið til þess að raunvextir hans verði jákvæðir að nýju“, sem þýðir að stýrivextir bankans þyrftu að verða hærri en mæld verðbólga í landinu.
Eftir síðustu vaxtahækkun eru vextir Seðlabankans 3,75 prósent en verðbólga 7,2 prósent, samkvæmt nýjustu mælingu Hagstofunnar. „Það hversu mikið nafnvextir munu þurfa að hækka fer þá eftir þróun verðbólgu,“ skrifar Gylfi í grein sem birtist í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Þar gerir prófessorinn hagstjórn eftir kórónuveirufaraldurinn að umtalsefni og ræðir einnig um komandi kjarasamningagerð. Varðandi kjarasamningana segir Gylfi að mikilvægt sé að aðilar vinnumarkaðs sýni ábyrgð „með því að taka þjóðhagslegar afleiðingar kjarasamninga til greina við gerð þeirra.“
„Á vinnumarkaði er samið um skiptingu þjóðartekna á milli fjármagns og launa. Ósætti leiðir þá til ófriðar sem yfirleitt endar í því að laun hækka meira en framleiðni sem síðan veltur út í verðlag. Auðvelt er að benda launþegahreyfingunni á að stilla kaupkröfum í hóf en einnig verður að gera þær væntingar til eigenda fjármagns að stilla eigin væntingum í hóf,“ skrifar Gylfi.
„Nú er tími til að sættast!“
Hann segir auðvelt að benda á hvernig væri best að bregðast við þeim aðstæðum sem nú blasa við og nefnir aukið aðhald ríkisfjármála, hækkandi vexti Seðlabankans og raunvexti útlána banka og lífeyrissjóða, auk þess sem að aðilar vinnumarkaðar komi sér saman um hóflegar launahækkanir sem samræmist lægri verðbólgu.
„En hvernig er útlitið þegar þetta er skrifað? Sumir leiðtogar launþega hrópa hástöfum þegar vextir hækka í 3,75% þótt raunvextir séu neikvæðir og raunvirði óverðtryggðra lána að lækka um rúmlega 7% á ári. Jafnframt er ekki að heyra enn sem komið er að vilji sé til sátta á vinnumarkaði í haust. Á fjármagnshlið vinnumarkaðarins er heldur ekki að heyra sáttatón. Eigendur margra stórra skráðra fyrirtækja greiða sér milljarða í arð. Mörg þessara fyrirtækja starfa við skilyrði fákeppni í krónuhagkerfinu þar sem hagnaður stafar ekki að fullu af því að stjórnendur hafi tekið áhættu í ákvörðunum eða komið með nýjungar í rekstri, svo vægt sé til orða tekið. Fréttir berast einnig af háum launagreiðslum stjórnenda margra af þessum fyrirtækjum. Þótt þessar launagreiðslur skipti litlu máli í þjóðhagslegu samhengi þá gefa þær tóninn fyrir hinn almenna vinnumarkað,“ skrifar Gylfi.
Hann bætir því við að skortur á samstöðu og samhæfingu peningastefnu og ríkisfjármála myndi líklega hafa í för með sér að vextir seðlabanka verði að hækka meira en annars væri nauðsynlegt á þessu ári og því næsta. „Ófriður á vinnumarkaði og miklar launahækkanir myndi kalla á enn meiri vaxtahækkanir. Nú er tími til að sættast!“ skrifar Gylfi.
Í greininni segir hann að verðbólga gæti enn hækkað á næstunni og að þau sem eldri eru geti auðveldlega gert sér í hugarlund hvernig mál gætu þróast á neikvæðan hátt næstu misseri.
„Hækkandi verðbólguvæntingar gætu valdið því að krafist verði hærri launa í haust til þess að bæta launafólki upp bæði verðbólgu þessa árs og væntanlega verðbólgu á næsta ári. Þessar launahækkanir fara síðan út í verðlag sem kallar á enn aðrar launahækkanir. Slík víxlverkun launa og verðlags getur varað í áraraðir. Þegar svo seðlabankar reyna ná tökum á verðbólgunni þá krefst slíkt atvinnuleysis með tilheyrandi hörmungum fyrir þá sem fyrir því verða,“ skrifar Gylfi.
Hann fjallar einnig um verðbólgu og vexti í öðrum ríkjum og nefnir sérstaklega að þrátt fyrir vaxandi verðbólgu séu seðlabankavextir enn lágir í Bandaríkjunum, Bretlandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi.
„Allar líkur eru á því að vaxtahækkanir hafi byrjað of seint og verið of litlar í þessum löndum sem síðan kallar á hærri vexti og meiri samdrátt á næstu árum. Mistökin frá áttunda áratugnum hafa þá verið endurtekin,“ skrifar Gylfi.
Hægt er að lesa grein Gylfa Zoega í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.