Verði fjárheimildir til embættis skattrannsóknarstjóra ekki auknar á næsta ári, mun embættið neyðast til að segja upp starfsmönnum. Í samtali við Fréttablaðið segir Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, að fjárframlög til embættisins eigi að lækka um tæplega fjörutíu milljónir á milli ára. Það þýði að þá þurfi að fækka um fimm til sex starfsmenn hjá embættinu, en þar starfa 29 manns í dag. „Ég er búin að fara á fund fjárlaganefndar. Málið er ekki útkljáð en mér heyrist að það eigi ekki að breyta þessu,“ er haft eftir skattrannsóknarstjóra í Fréttablaðinu.
Þá lýsir skattrannsóknarstjóri áhyggjum sínum af því hvernig embættið eigi að hafa burði til að vinna úr upplýsingum um skattaundanskot Íslendinga erlendis, verði tekin sú ákvörðun að kaupa upplýsingarnar eins og hefur verið til umræðu. Embættið sendi fjármálaráðuneytinu í haust greinargerð, eftir að hafa farið yfir sýnishorn af gögnum um hundrað Íslendinga sem hafa verið boðin til kaups, sem benda til að skattaundanskot hafi verið stunduð.
Starfshópur sem fjármálaráðherra skipaði á dögunum, skoðar hvort lagalegar hindranir séu á kaupum á skattagögnunum og hvort veita eigi sakaruppgjöf vegna undanskota, greiði menn skattaskuld sína.
Skattrannsóknarstjóri segir í samtali við Fréttablaðið að sakaruppgjöf hafi skilað góðum árangri í nágrannalöndum og þeim löndum sem Íslendingar vilji bera sig saman við. „Menn fá upp á yfirborðið tekjur og eignir sem eru duldar gegn því að refsingar falli niður eða verði með einhverjum hætti lægri en ella. Það er hins vegar umdeilt hvort veita eigi einhverjum sakaruppgjöf sem aðrir fá ekki. Það eru ýmis sjónarmið uppi um þessi mál,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir í Fréttablaðinu.