Nær fordæmalaus staða er nú uppi í kjaradeilum á Íslandi, þar sem nánast allar kjaraviðræður hafa siglt í einni halarófu beint í strand.
Eftir umtalsverðar launahækkanir til framhaldsskólakennara og lækna, og þá ekki síst þeirra síðarnefndu, krefjast nú fleiri hópar í samfélaginu skiljanlega að þeir fái líka stærri sneið af þjóðarkökunni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, var svo ekki beinlínis að lægja öldurnar þegar hann skýrði aukinn þunga í kröfu eftir kjarabótum þannig að nú finndi fólk að það væri meira til skiptanna.
Nú stefnir í að boðuð allsherjarverkföll á næstunni muni hafa enn alvarlegri afleiðingar á íslenskt samfélag, og kjaraviðræður í nánast óleysanlegum hnút þar sem samningsaðilar saka hver annan um rangfærslur í fjölmiðlum á víxl.
Hér er pæling. Bæði Seðlabankinn og nú Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri sem til þekkja telja að íslenska hagkerfið standi engan veginn undir launakröfum verkalýðsfélaganna, og óábyrgar launahækkanir muni keyra upp verðbólgu, stuðla að uppsögnum og enda með að bíta alla í rassinn. Auðvitað á að borga fólki á Íslandi hærri laun, og sum fyrirtæki eru vissulega betur í stakk búin til þess en önnur, en hversu lengi getur verkalýðsforystan skellt skollaeyrum við þessum varnaðarorðum frá til þess bærum aðilum?
Þjónar hún raunverulega félagsmönnum sínum til langframa með því að krefjast launahækkanna sem engan veginn er hægt að standa undir? Varla.